Friday 26 November 2010

Hjólreiðar

Jæja, það er margt sem veltist í huga mér þessa dagana. Við hjón höfum hægt og bítandi aukið notkun hjólsins sem farartækis í þau erindi sem við höfum hér og þar.
Ég held að ég hafi byrjað í kjölfar átaksins "hjólað í vinnuna" að nota hjólið meira. Fyrst þótti mér þetta mikið afrek að hjóla í vinnu ca 6 km leið og fékk mikið hrós og undrunarhróp frá samstarfsfólki. Eftir mjaðmaskiptaaðgerðir á báðum mjöðmum leið nokkur tími þar til ég fór aftur að hjóla, en nú eftir að ég hætti að vinna er ég komin á fullt.
Og ég hjóla orðið flest sem ég þarf að fara. Ég hef tamið mér að fara nokkrar ferðir útí búð í viku og þá á hjólinu í staðinn fyrir eina ferð á bílnum. Smám saman þá er einhver innri hvati sem dregur mig að hjólinu og láta bílinn hvíla sig.
Við hjón hjólum mikið saman sérstaklega eftir að lítil vinna var hjá bóndanum og það er auðvitað miklu skemmtilegra. En það sem mér finnst vera að sannast á mér, er hvað þessi hreyfing og útivera er holl. Ég hef í mörg ár verið slæm af vefjagigt og slitgigt. Það er ekki langt síðan ég hélt að ég væri að fara í aðgerð á hné, var afar slæm og gat varla gengið fyrir verkjum og vanlíðan. Ég var alltaf tilbúin með verkjalyf og ég hef lengi átt við svefntruflanir að stríða, þannig að ég vakna við hvað sem er og næ ekki að sofna aftur.
Það er skemmst frá því að segja að sjúkraþjálfari hjálpaði mér verulega með hnéð með æfingum og geislum, en framhaldið hefur verið mitt. Það að hjóla og ganga hefur haft verulega góð áhrif. Svo ég finn ekki lengur til í hné, geng 10 km án vandamála fyrir utan að hjóla um 20 km og nætursvefn er sætur og góður án lyfja.
Ég trúi orðið alveg á að þetta sé málið. Ef maður finnur til einhversstaðar, þá er að hreyfa það og ganga eða hjóla og halda bara áfram, kannski ekki ef maður fótbrotnar eða þannig:-)
En líf mitt er gleðilegra með hjólinu.

Wednesday 13 October 2010

Hjólahugleiðingar

Jæja enn er haustið svo milt að það að fara ferða sinna á hjóli er lítið mál. Ekki það að mér finnst það meira og minna lítið mál að hjóla, það er skemmtilegt og auðvelt.
Ég fæ ótrúlega mikil viðbrögð á þennan ferðamáta minn, fólk á ekki orð yfir hve dugleg ég sé. Það er alveg sama þó ég segi að það sé miklu auðveldara að hjóla heldur en fólk almennt heldur. Ég reyni að hjóla allt sem ég þarf að fara. Til dæmis hef ég tekið uppá því að fara oft í viku í Bónus og kaupa bara lítið í einu, svo ég geti auðveldlega flutt það á hjólinu, í stað þess að keyra einu sinni og gera stórinnkaup.
Einnig hjóla ég tvisvar í viku niður í Ármúla í jógatíma. Fólkið sem er með mér þar allt konur á svipuðu reki og ég, eru alveg undrandi á þessu og hætta aldrei að hrósa mér fyrir þetta. Það er ekki leiðinlegt, en ég reyni alltaf að segja þeim hversu auðvelt þetta sé. Ég tala samt alveg fyrir tómum eyrum, fólki finnst þetta vera eitthvert óskaplegt átak.
Ég held stundum að við íslendingar séu mestu aumingjar. Þar sem ég hef á undanförunum árum farið oft til Danmerkur og það á öllum árstímum, sumar, vetur, vor og haust, þá hef ég séð að þar er þetta ekki svona, fólk á öllum aldri notar hjólið til að komast á milli staða og það er sama á hvaða árstíma það er eða hvaða aldur er á fólki. Fólk yfir áttrætt notar hjól þar. Og það er ekkert bara blítt og gott veður í Dk, t.d. er vetrarveðrið þar oft verra en hér, miklu kaldar vegna rakans sem er miklu meiri en hér. Mér hefur aldrei orðið eins kalt eins og í Danmörku. Og það er líka rangt að þar sé allt slétt og fellt. Það er það alls ekki, þar eru líka brekkur og bara verulegar t.d í Álaborg þar sem ég þekki best til. Þetta hefur engin áhrif í Danmörku, fólk notar hjólin þar. Stóri munurinn er hve vel er gert við hjólareiðafólk þar. Þar er gert ráð fyrir hjólandi fólki og allst staðar eru standar fyrir hjól, en það er leitun að slíku hér á landi, t.d. við verslandir og stofnanir. Meira að segja við hjólabúðir eru ekki standar! Hvað þá að almennilegt "vegakerfi" sé til hér á landi.
En á Íslandi hefur alltaf verið viðkvæðið að veðrið væri svo vont að við yrðum öll að eiga bíla. Árni Sigfússon, hinn frægi bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sagði einhvern tímann að bíllinn væri fyrir okkur íslendinga eins og kápan hjá fólki í útlöndum. Hér væri ekkert hægt annað en að komast allt á bíl og uppað dyrum alls staðar! Þvílíkt bull.

Monday 20 September 2010

Trú

Ég var í sumarbústað um helgina með trúuðu fólki. Eins og gjarnan vill verða fer slíkt fólk að tala um trúna og þar sem þetta fólk vissi af trúleysi mínu, "sendi það mér tóninn". Í þeirri orðræðu var minnst á að fólk sem ekki tryði, teldi sjálft sig vera æðstu verur heimsins. Ég þagði eins og venjulega í slíkum aðstæðum, því það leiðir oftast til leiðinda að ræða þessi mál, þegar mikil sannfæring er annars vegar.
Ég fór síðan að velta þessu fyrir mér í morgun. Ég hef aldrei sett í orð trúleysi mitt og ég hef ekki upplifað mig sem æðri veru, æðri en aðrir þeir sem á jörðinni eru eða í alheiminum. En þannig vildu viðmælendur mínir setja mig fyrir sér. Að við lítum á okkur sem æðstu verur. Þannig hef ég aldrei séð mig í samhengi við heiminn. Ég er bara hér, hluti af öllu hinu nú um stundir (reyndar afar stutta stund) og reyni að gera það eftir bestu getu og vitund hverju sinni.
Ég held að ég hverfi héðan eins og hin "dýrin" og þar með sé það búið. Það er ekkert endilega óskastaðan, en ég get bara ekki trúað öðru.
Mér finnst ég vera hluti af þessu lífi, sem kviknar og þróast í gegnum aldirnar, breytist eftir aðstæðum og umhverfi og hverfur svo og nýtt kemur í staðinn.
Einhvern veginn svona hugsa ég þetta, ég hef aldrei velt þessu mikið fyrir mér, en með árunum orðið afhuga kristinni trú sem og annarri guðatrú. Ég get alveg tekið undir mörg orð þeirra spámanna sem menn nota til vitnis um að guð sé til. Kristur, Múhameð, Búdda og fleiri og fleiri. Þá eru það orð um hvernig beri að lifa þessu lífi samferða ólíku fólki og öðrum dýrum. En trúin á guðinn hefur horfið hægt og bítandi og ég hef satt að segja aldrei alveg skoðað hug minn, en fór til þess nú þar sem mér fannst ósanngjarnt að mér væri ætlað að telja mig æðri og skil það ekki.

Sunday 27 June 2010

Evrópubandalagið og Ísland

Mig langar til að Íslendingar haldi áfram með umsókn í Evrópubandalagið. Ástæðan er að megninu til vegna þess að mig langar að sjá og heyra hvað það myndi fela í sér. Ég er ekki sammála þeim háværu röddum sem vilja draga umsóknina til baka. Ég vil einmitt og tel nauðsynlegt að við förum í gegnum þetta ferli og fáum að sjá hvaða kostir og gallar fylgja inngöngunni.
Ég held að það sé svo um miklu fleiri en mig að vita hreinlega ekkert hvað innganga þýddi fyrir land og þjóð. Ég held að þjóðin hefði mjög gott af því að fara í gegnum þessa umræðu og þannig skoða kosti og galla. Ég held líka að ef við förum í þetta bandalag að þá verðum við að hlíta ýmsum lögum og reglum, sem við (stjórnmálamenn og embættismenn) höfum ekki hirt um að fara eftir hingað til. Svo sem reglur um mannaráðningar við æðstu embætti landsins.
Ég held að myntin okkar sé að flækjast fyrir okkur, að þetta litla myntkerfi sem við höfum sé of lítið og að stjórnmálamenn geti notað litlu krónuna okkar sér í hag og okkur litla fólkinu í óhag. Það er einhver pólitík að halda í krónuna, einhver furðuleg eiginhagsmuna pólitik. Ég held að með því að komast inní stærra myntsamfélag verði miklu erfiðara að hræra með fjármálamarkaðinn og að þá komist raunverulega ró á samfélag okkar. Þá geti stjórnmálamenn ekki lengur ráðskast með okkur þegnana eins og hverjar aðrar strengjabrúður.
Ég held að við ættum að fara í aðildarumsókn, ræða kosti og galla og taka upplýsta ákvörðum. Ekki láta stjórnmálastéttina segja okkur hvað okkur sé fyrir bestu. Það hefur ekki reynst okkur vel á seinustu öldum.

Thursday 6 May 2010

Kreppan og réttlætið

Það hafa verið langir og erfiðir mánuðir undanfarið. Veturinn hefur verið langur og einhver undirtónn í öllu. Reiði og leiði vegna þess óréttlætis sem þjóðin hefur orðið að sitja undir, liggur alls staðar undir.
Í dag las ég góða grein eftir Þorvald Gylfason, ekki þá fyrstu, en þar talar hann um svokallaða pólsku aðferð til að ná fram réttlæti. Sú aðferð byggir á því að stjórnarherrar fyrri tíma sem skömmtuðu sér betri líffeyri til elliára en almennt viðgengst, yrðu sviptir þeim fríðindum. Fríðindum sem þeir skömmtuðu sér sjálfir og eru margfalt hærri en það sem hinn venjulegi maður getur átt von á.
Þorvaldur leggur til að þessi aðferð verði farin hér og þá gildi það um þá ráðamenn sem hófu sukkið, hrunið, spillinguna og valdníðsuna sem viðgengist hefur hér um árabil. Ég mæli með þessu og tel að það gæti verið skref í réttlætisátt.
Nú er loksins farið að handtaka þá menn sem við öll teljum að hafi farið glæfralega með þá ábyrgð sem þeim var sýnd. Nú getum við ef til vill farið að trúa því að réttlæti sé til í okkar samfélagi. Það er ekki slæm tilfinning:-)

Thursday 4 March 2010

Vor vor vor

Allir árstímar eru skemmtilegir fyrir minn smekk. Á haustinn hefur rómantíkin völd, þá fer fólk að kveikja ljósin aftur og kertaljósin sem setja svo róandi svip á allt. Þá er uppskeran, ber og ávextir og grænmeti og undirbúningur fyrir veturinn. Slátur og svo framvegis. Veturinn hefur jólin. Jólin sem gera það mögulegt að þrauka langa, dimma, kalda vetrardaga. Jól okkar norrænna manna sem fagna því að jörðin hefur sig aftur í átt til sólar fyrir okkur á norðurhvelinu. Vorið er síðan það allra mest spennandi. Það er endalaus tilhlökkun sem kviknar við það að sólin hækkar og hækkar á lofti fyrst hægt en síðan hraðar og hraðar og birtan tekur völdin. Gróðurinn tekur við sér og mannfólkið kíkir eftir því hvort þessi eða hin plantan komi nú ekki örugglega upp, hvort hún hafi ekki lifað þetta af. Síðan er það sáning fræja og ótrúin á að þetta verði nú eitthvað, klipping trjáa og runna, útivera. Já vorið er yndislegt, svo yndislegt.
Þórbergur Þórðarson sagði að skammdeginu lyki þann 10. mars, við ættum að gera þann dag að hátíðisdegi. Ég ætla að gera þann dag að hátíðisdegi í framtíðinni. Baka pönnukökur eins og þeir gera fyrir vestan og norðan þegar sólin sést í fyrsta sinn á vorin. Já, vorið er yndislegt.

Thursday 28 January 2010

Framhald..

Nú er verulega gengið á te forðann minn, sem ég týndi s.l. sumar. Ég sé að ég verð að vera aðeins duglegri en í fyrra og nú veit ég betur hvað ég vil og hvar ég næ í það. Svona gengur það, maður byrjar á einhverju, kann það ekki en ef maður heldur áfram að þreifa fyrir sér, þá kemur þekking og hlutirnir ganga betur.
Mikið hlakka ég til vorsins og í næstu viku byrja ég að kíkja á tréin. Þarf að útvega mér langar klippur, ef einhver veit hvar maður fær svoleiðis (lánað eða keypt), þá endilega láta mig vita.

Ilmur af vori!

Veðurblíðan hefur sérstök áhrif á fólk þessa dagana. Þessi endalausa blíða gerir það að verkum að mig er farið að klæja í fingurna eftir vorverkunum. Birtan sem er nú 2 tímum lengur en um áramótin hefur líka sín áhrif. Nú er að renna tími trjáklippinga og þar þarf ég nú heldur betur að taka til hendinni. Ég þarf að skera verulega niður lerkið fyrir norðan hús, en garðyrkjufræðingur sagði að það gæti losað mig við óværu sem hefur gert lerkinu lífið leitt. Síðan eru það öll hin trén, einnig þarf ég að rífa upp með rótum þessar gljávíðisplöntur sem eftir eru og ekki hafa náð að jafna sig á sveppasýkingu. Nú eru komin hátt í 10 ár síðan þessar plöntur sýktust og sama hvað ég hef reynt þær verða bara ljótari og ljótari. Svo nú verður þeim fórnað.
Ég fékk frábæra gjöf frá bróður mínum í afmælisgjöf, gjafakort í garðyrkjustöð. Svo nú er ég að velta þessu fyrir mér fram og til baka, hvað á ég að fá mér. Garðurinn er nógu stór svo það verður spennandi að velja eitthverja fína plöntu.
Ég er einnig farin að undirbúa (í huganum) forsáningu matjurta, blóma og svo kryddjurta. Það þarf að huga að góðum stað til að koma þessu til, þar þarf að vera bjart og aðgengilegt. Hefði alveg viljað vera komin með gróðurhús, ha ha ha, mikið vill meira!
Nú er verulega gengið á teforðann minn, sem ég týndi í hinni g

Thursday 7 January 2010

Árið 2010

Árið 2010 komið og ég sem trúði því ekki sem barn að ég ætti eftir að lifa aldamótin. Árið 2000 var í slíkri órafjalægð að það var erfitt að ímynda sér að maður ætti eftir að upplifa það. Þá töluðum við vinkonurnar um hvernig heimurinn yrði árið 2000, það var mikið tækniundur sem við sáum fyrir okkur. Allt átti að vera hægt og maður átti að geta flogið svona sí svona, án flugvélar.
En nú er 2010 komið og enn lifi ég og tæknin ekkert svo ofsalega mikið framar en þegar ég var barn. Mest eru það tölvurnar, þær sá maður ekki fyrir og netið og farsímarnir. En lífið heldur áfram og nú erum við Bjarney dóttir mín farnar að setja okkur í stellingar fyrir hjólaferð í júli eitthvað um Vestfirðina.
Verkefnið er að ákveða dagsetningar og finna gististað þaðan sem við getum tekið hjólatúra út frá. Ég held það verði ævintýri að hjóla á þessu fallega svæði og ég held að þar geti verið kyrrð sem ekki verður upplifuð á mörgum öðrum stöðum.
Við Bjarney erum að vona að einhverjir fleiri hafi áhuga, nennu og getu til að slást í för með okkur, sumir til að hjóla með í lengri eða skemmri tíma, aðrir til að sjá hvernig gengur og vera með okkur á gististað og einhverjir til að kippa trússi með sér fyrir okkur.
Eitt er víst, þetta verður gaman.