Tuesday 7 June 2011

Að hjóla í Danmörku
Jæja þá hef ég nú smáreynslu af því að hjóla í Danmörku. Við vorum 3 vikur þar og flesta dagana hjóluðum við eitthvað. Við bjuggum lengst af í smábæ við norðurströnd Sjálands. Í fyrstu vorum við með hugmyndir um að hjóla frá Ebeltoft til Álaborgar sem eru um 120 km að mig minnir. Vegna leiðindaveðurs, kulda, rigningar og síðast en ekki síst hávaðaroks, þá hættum við við. Í staðinn hjóluðum við styttri vegalengdir á milli bæjarfélaga og með ströndinni. Engar lengri leiðir, en það var upplifun að prófa að hjóla í þessu landi hjólreiða. Mér kom á óvart hvað hjólastígar og aðstaða til hjóla var ekki eins góð og ég hafði gert mér í hugarlund. Ég hef áður hjólað í Álaborg og þar er stígakerfið ágætt sérstaklega næst miðbænum.
Núna sá ég að hjólaaðstæður eru ekkert svo mikið frábrugðnar því sem gerist hér alla vega hér á höfuðborgarsvæðinu. Sums staðar eru frábærir stígar breiðir og liggja meðfram hraðbrautum og þar er hjólað í báðar áttir og pláss gott. Annars staðar hverfa hjólastígarnir og maður verður að finna áframhaldið alveg eins og hér. Á sumum stöðum eru stígarnir malargötur og mjög mismundandi breiðar allt frá dekkjabreiddinni og að breiðum grófum malarstígum. Víða liggja stíganir alveg með hraðbrautinni og fannst mér ekki alltaf alveg nógu breiðir. Á öðrum stöðum er manni boðið að hjóla í gegnum bæjarfélög eins og t.d. á Arnarnesinu og í Kópavogi, ef viðkomandi er á leið frá Reykjavík til Hafnarfjarðar. Þannig að það er ekkert betra en hér þegar maður verður að taka langan krók á sig til að komast á milli staða.
Það sem virðist vera helsti munurinn á að hjóla í Danmörku og hér er að þar eiga hjólareiðamenn óskoraðan rétt og njóta forgangs mjög víða.
Síðan er annað, all flest hjól sem ég sá í Danmörku og það á við um hjólið sem ég var á, eru 7 gíra eða minna, afar fá eru með dempara á hnakk eða stýri og það á líka við um hjólið mitt. Í Danmörku eru líka brekkur, langar og háar og þar er oft rok. Veturnir eru kaldir þar eins og hér og jafnvel kaldari vegna rakans sem er þar en ekki hér.
Því er það niðurstaða mín, að það er ekkert erfiðara að hjóla hér en þar. Við erum á réttri leið og það eru orðnir margir góðir stígar hér sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Ef það væri gert svolítið átak í að breyta götum þannig að hjól komist betur um þá værum við í mjög fínum málum. Og svo út að hjóla!

Tuesday 8 February 2011

Gigtin

Hún er skrýtin þessi gigt. Ég veit aldrei hvernig hún hagar sér. Mér hefur fundist að ef ég er dugleg að hreyfa mig, hjóla/ganga hafi ég eflst og styrkst og ekki eins viðkvæm og útsett fyrir verkjum. En svo koma svona dagar eins og í dag! Gjörsamlega allt ómögulegt, verkirnir eru útum allann líkamann, helst í liðamótum það er eins og einhver með töng læðist inná liðamót og klípi þar með öllu afli í einhverjar viðkvæmar taugar. Ég get engan veginn verið, þoli ekki úr né hringa eða föt. Langar að liggja í heita pottinum en get ekki með nokkru móti hugsað mér að komast þangað. Það kostar að fara úr fötunum, fara í sturtu og þvo sér, klæða sig í sundföt og slopp og ganga síðan út í kuldann og svo að dýfa sér í yndislega svalandi heitt vatnið. En það gengur ekki því allur aðdragandinn er of mikil áreynsla þegar mér líður svona illa.
Allur skrokkurinn er eins og vatnsfylltur, hendur eru bólgnar og öll liðamót. Það er eins og ég sé með harðsperrur alls staðar. Líðanin líkt og þegar maður er með flensu og beinverki.
Svo stundum koma svona djúpar lægðir og óveður en ég finn ekki neitt? Ég veit aldrei hverju ég á von á! Þetta er afar leiðinlegt ástand, en ég hugsa samt alltaf að þetta gæti allt verið miklu verra. Og svo koma betri tímar fljótlega og ég er orðin svo sterk af hjólatúrunum sem eru svo skemmtilegir og gönguferðunum. Ég veit að ég þyrfti að drífa mig í sund öðru hvoru en það er eitthvað óskaplega erfitt að framkvæma það. Ég veit að sund myndi gera mér mjög gott. Ég var miklu duglegri hér áður fyrr að sækja sundlaugina og ég man vel hve gott það gerði mér, þannig að ef ég bætti sundlauginni við hjólatúrana og göngurnar þá væri ég í nokkuð góðum málum. Ég þarf að æsa mig upp í að langa í sund. Það er eitthvað voða erfitt að koma því inn í prógrammið.

Tuesday 1 February 2011

Hjólreiðar og heilsufar

Ætli það séu ekki um það bil 10 ár síðan ég fór að hjóla að einhverju ráði. Ekki mikið fyrstu árin, en stigvaxandi. Nú er svo komið að ég nánast nota ekki bílinn. Fer orðið nánast allra minna ferða á hjóli. Og líkar vel.
Ég hef hugsað undanfarið hvað þetta er einstaklega þægilegur ferðamáti og allar leiðir hér innan höfuðborgarsvæðisins eru stuttar. Að nota hjól sem samgöngutæki almennt er líka hugarfar og þegar maður byrjar þá verður þetta eins konar vani. Manni finnst það fyrirhöfn að ræsa bíl, miklu einfaldara og þægilegra að stökkva á hjólið. Þar fyrir utan sparar maður mikla peninga. En auðvitað tekur það lengri tíma að fara um á hjóli og þá hef ég vinninginn þar sem ég stunda ekki lengur vinnu utan heimilis.
En stóri ávinningur hjólanotkunarinnar er heilsufarið. Fyrir u.þ.b. tveimur árum síðan var ég afar slæm af gigt og átti erfitt með allar hreyfingar, tók lyf við ýmsum hliðarverkunum gigtarinnar, s.s. svefnlyf og fleira. Þar sem lyf og ég hafa aldrei verið miklir vinir tók þetta á að nota lyf og ég barðist alltaf á móti lyfjunum auk þess sem ég finn alltaf verulega fyrir aukaverkunum. Svo smátt og smátt hef ég hætt lyfjanotkun, aukið hreyfingu og þar kemur hjólið inní. Vegna slits í liðum hefur ganga og önnur hreyfing valdið mér vanlíðan og verkjum, en að hjóla er svo mjúk hreyfing að hún veldur litlum verkjum og álagi. Með tíð og tíma hefur styrkur minn aukist, ég þarf aðeins að gæta að því að hafa aldrei þungt álag á hnén og þar koma margir gírar á hjólinu mínu að mjög góðum notum.
Nú hjóla ég 20 km án þess að finna fyrir því, það er nánast eins og upphitun nú orðið og gigtin er miklu miklu mildari við mig en áður. Auðvitað fæ ég mín slæmu köst, þegar lægðirnar raða sér utanum landið og skella sér svo hver á eftir annarri innyfir borg og byggð. Það er ekkert hægt að gera við því, en því meira sem ég hjóla því hressari verð ég. Því betur sef ég og verkirnir minnka.
Um daginn hjóluðum við hjón í Bláa lónir úr Kópavogi og það er ekki hægt að segja að ég hafi fundið fyrir því. Auðvitað þarf ég að hjóla með mínum hraða og ég þarf að stoppa oft til að hvíla. Lykillinn er að verða aldei of þreytt, hvíla heldur oftar og stutt í einu. Og það gengur mjög vel. Þann daginn hjóluðum við 92 km og vorum bara brött á eftir. Ég ætla ekki að reyna að halda því fram að ég hafi ekki fundið fyrir því, en að ég væri búin á því eins og ég átti satt að segja von á, það var fjarri lagi.
Svo framundan eru bjartari dagar og hlýrri, smátt og smátt og þá verður lagt í lengri hjólatúra eftir því sem veður og vinar leyfa. Og ef allt fer eins og áætlað verður lagt af stað í hringferðalag á hjólunum þegar sól er hæst yfir Íslandi og sest ekki allann sólarhringinn:-) Ég hlakka mikið til.