Thursday 27 November 2008

alvöru mótmæli

Ég er hugsi yfir þeim mótmælum sem ég hef tekið þátt í. Ég er ekki til í ofbeldi eða neitt í þeim dúr. Ég las pistilinn hans Illuga Jökulssonar um daginn í Fréttablaðinu þar sem hann hæddist að lögreglunni fyrir að tala um eggjakast og tómatakast sem einhverja ógnun. Illugi sagði að slíkt meiddi engan og skemmdi ekkert og hreinsaðist upp nánast sjálfkrafa. Hins vegar sagði hann að það væri auðvitað sóun á matvælum og þess vegna ekki til eftirbreytni. Ég hef nýlega kynnst ungum frönskum manni sem finnst við íslendingar vera ansi hógvær í mótmælum og segir að það eigi að fara með kúaskít og sturta honum niður fyrir framan Alþingishúsið í miðri viku. Það meiðir engar og það skemmtir ekkert, en það veldur óþægindum, þ.e. lyktin og í miðri viku eru þingmenn á staðnum sem og ráðherrar.
Síðan er hitt að það eru margir að skipuleggja mótmæli á mismundandi tímum. Hví ekki að stefna öllum á sama tíma á sama stað? Væri það ekki áhrifaríkara? Eiga ekki öryrkjar og lífeyrisþegar sömu hagsmuna að gæta og það fólk sem hefur fylgt Herði Torfasyni að málum? Eru félagar í ASÍ ekki í sama báti og við hin og Hörður Torfason? Hví getur þetta fólk ekki komið af krafti með okkur á fundina hans Harðar?
En nú er að blása og minna alla á að fara úr vinnu á mánudaginn 1.des og mótmæla við Stjórnarráðið kl. 15!
Allir samtaka nú.

Mótmæli 1.desember

Nú þarf að efla samstöðuna og minna á mótmælin kl 15 á mánudaginn 1. desember. Göngum út hvar sem við erum stödd og mætum á Lækjartorg og mótmælum. Sýnum samstöðu, allir sem einn.

Wednesday 26 November 2008

tilraun enn og aftur

Það er greinilegt að sú sem "heldur hér á penna", er að nálgast sjötugs aldurinn! Ótrúlega sein að læra á nýja hluti í tölvuheimum. Ef ég hefði ekki svona marga þolinmóða og klára "krakka" í kringum mig, sem nenna að segja mér endalaust til þá væri ég ekkert í þessum tölvuheimum að leika mér.
En þetta er gaman og aldrei að vita nema maður haldi þessu áfram og skrái hugsanir sem margar hverjar eru orðnar ansi miklar í öllu þessu fári sem gengur hér um okkar tíma.
Það er nokkuð merkilegt að setja þetta í samhengi við tímana sem eiginmaðurinn las um fyrir mig í gærkvöldi. Hann fór inná Morgunblaðið í nóvember 1918, en þá dó föðuramma hans, 34 ára frá 7 ungum börnum. Á þessum tíma í blaðinu eru settar fram tilkynningar um þá sem dáið höfðu síðasta sólarhringinn. Þar er verið að lýsa því þegar menn eru að ganga um Reykjavík, með hestvagna og taka lík um bæinn og vegna hálku þurfa þeir nánast að halda klárnum og vagninum uppi. Þessi staðreynd er mjög ógnvekjandi, en auðvitað getum við ekki borið þetta á neinn hátt saman við það sem er að gerast nú og eigum ekki að gera það. Vonandi eigum við ekki eftir að lifa slíka tíma aftur. En framkoma stjórnvalda við almenning nú verður aldrei réttlætt.

Friday 21 November 2008

Mótmæli á morgun

Einn laugardagurinn enn á morgun og ég mæti á Austurvöll.
Það verður að koma þessu fólki frá stjórn landsins. Það á ekki að kjósa núna, það á að koma á Þjóðstjórn, þar sem fagfólk verður að axla þá ábyrgð að reyna að bjarga því sem bjargað verður.
Á alþingi nú eru aðeins "pólitíkusar" og þau eru lituð af því að vera í pólitísku harki og þar af leiðandi er allt sem þau gera og þær leiðir sem þau fara litaðar af pólitísku poti.
Sópum út, það er eina raunhæfa leiðin til þess að eitthvað af viti verði gert á þessu landi til að hinn venjulegi íslendingur borgi brúsann eftir allt sukkið. Við erum að tala um fólkið sem ekki mátti heyra orðið skattar, en nú æpir það látum litla manninn borga!
Þannig er það og þannig hefur það verið, nú er mál að linni.

Wednesday 19 November 2008

hversdagurinn

Það er mikið að gera þessa dagana. Við hjón höfum flutt okkur í "neðra" svefnherbergið og erum að taka hið "efra" í gegn. Hvítta gamla panelinn sem var orðin nokkuð dökkur, mála sperrurnar og kantlistana hvíta, einnig nýju svalahurðina og nýja opnanlega gluggann. Vonumst til að geta klárað þetta núna fyrir helgi. Þá verður eftir að láta sprautulakka hurðirnar þrjár sem eru á efri hæðinni, en þær eru orðnar ansi lúnar. Ég er mjög ánægð að geta tekið þetta svona í gegn, enda allt húsið orðið afar lúið og í mikilli þörf fyrir lagfæringar.
Á föstudaginn ætla ég að hafa matarboð fyrir vini mína og er að undirbúa matseðilinn. Á laugardag ætla ég á mótmælafundinn einu sinni enn og síðan fer ég heim að baka írsku jólakökuna mína og baka brauðið mitt og leyfa Bjarneyju dóttur að fylgjast með því hana vantar að ná tökum á brauðbakstri. Um leið kemur Elías tengdasonur að kíka á nýju tölvuna mína.
Á eftir fer ég að ná í Írisi Huldu og passa hana þar til mamma hennar kemur heim. Hún er algjör húmoristi og mikill sprellikelling. Það vantar núna bara herslumuninn á hjá henni að fara að ganga, en hún er að gera svona tilraunir á milli borða og stóla, og hlær mikið að sjálfri sér. Skemmtilegur krakki, engin spurning.

Sunday 16 November 2008

fyrsta tilraun

Jæja nú er ég komin með bloggsíðuna mína og ætla að reyna að nýta hana svona til að koma með hugsanir, pælingar og svoleiðis. Bjarney mín hefur verið að aðstoða mig við að komast inní þetta. Síðan væri gaman að fá svör og slíkt, en það eru auðvitað allir að blogga svo það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að vera að þessu líka.