Sunday 27 June 2010

Evrópubandalagið og Ísland

Mig langar til að Íslendingar haldi áfram með umsókn í Evrópubandalagið. Ástæðan er að megninu til vegna þess að mig langar að sjá og heyra hvað það myndi fela í sér. Ég er ekki sammála þeim háværu röddum sem vilja draga umsóknina til baka. Ég vil einmitt og tel nauðsynlegt að við förum í gegnum þetta ferli og fáum að sjá hvaða kostir og gallar fylgja inngöngunni.
Ég held að það sé svo um miklu fleiri en mig að vita hreinlega ekkert hvað innganga þýddi fyrir land og þjóð. Ég held að þjóðin hefði mjög gott af því að fara í gegnum þessa umræðu og þannig skoða kosti og galla. Ég held líka að ef við förum í þetta bandalag að þá verðum við að hlíta ýmsum lögum og reglum, sem við (stjórnmálamenn og embættismenn) höfum ekki hirt um að fara eftir hingað til. Svo sem reglur um mannaráðningar við æðstu embætti landsins.
Ég held að myntin okkar sé að flækjast fyrir okkur, að þetta litla myntkerfi sem við höfum sé of lítið og að stjórnmálamenn geti notað litlu krónuna okkar sér í hag og okkur litla fólkinu í óhag. Það er einhver pólitík að halda í krónuna, einhver furðuleg eiginhagsmuna pólitik. Ég held að með því að komast inní stærra myntsamfélag verði miklu erfiðara að hræra með fjármálamarkaðinn og að þá komist raunverulega ró á samfélag okkar. Þá geti stjórnmálamenn ekki lengur ráðskast með okkur þegnana eins og hverjar aðrar strengjabrúður.
Ég held að við ættum að fara í aðildarumsókn, ræða kosti og galla og taka upplýsta ákvörðum. Ekki láta stjórnmálastéttina segja okkur hvað okkur sé fyrir bestu. Það hefur ekki reynst okkur vel á seinustu öldum.