Thursday 28 January 2010

Framhald..

Nú er verulega gengið á te forðann minn, sem ég týndi s.l. sumar. Ég sé að ég verð að vera aðeins duglegri en í fyrra og nú veit ég betur hvað ég vil og hvar ég næ í það. Svona gengur það, maður byrjar á einhverju, kann það ekki en ef maður heldur áfram að þreifa fyrir sér, þá kemur þekking og hlutirnir ganga betur.
Mikið hlakka ég til vorsins og í næstu viku byrja ég að kíkja á tréin. Þarf að útvega mér langar klippur, ef einhver veit hvar maður fær svoleiðis (lánað eða keypt), þá endilega láta mig vita.

Ilmur af vori!

Veðurblíðan hefur sérstök áhrif á fólk þessa dagana. Þessi endalausa blíða gerir það að verkum að mig er farið að klæja í fingurna eftir vorverkunum. Birtan sem er nú 2 tímum lengur en um áramótin hefur líka sín áhrif. Nú er að renna tími trjáklippinga og þar þarf ég nú heldur betur að taka til hendinni. Ég þarf að skera verulega niður lerkið fyrir norðan hús, en garðyrkjufræðingur sagði að það gæti losað mig við óværu sem hefur gert lerkinu lífið leitt. Síðan eru það öll hin trén, einnig þarf ég að rífa upp með rótum þessar gljávíðisplöntur sem eftir eru og ekki hafa náð að jafna sig á sveppasýkingu. Nú eru komin hátt í 10 ár síðan þessar plöntur sýktust og sama hvað ég hef reynt þær verða bara ljótari og ljótari. Svo nú verður þeim fórnað.
Ég fékk frábæra gjöf frá bróður mínum í afmælisgjöf, gjafakort í garðyrkjustöð. Svo nú er ég að velta þessu fyrir mér fram og til baka, hvað á ég að fá mér. Garðurinn er nógu stór svo það verður spennandi að velja eitthverja fína plöntu.
Ég er einnig farin að undirbúa (í huganum) forsáningu matjurta, blóma og svo kryddjurta. Það þarf að huga að góðum stað til að koma þessu til, þar þarf að vera bjart og aðgengilegt. Hefði alveg viljað vera komin með gróðurhús, ha ha ha, mikið vill meira!
Nú er verulega gengið á teforðann minn, sem ég týndi í hinni g

Thursday 7 January 2010

Árið 2010

Árið 2010 komið og ég sem trúði því ekki sem barn að ég ætti eftir að lifa aldamótin. Árið 2000 var í slíkri órafjalægð að það var erfitt að ímynda sér að maður ætti eftir að upplifa það. Þá töluðum við vinkonurnar um hvernig heimurinn yrði árið 2000, það var mikið tækniundur sem við sáum fyrir okkur. Allt átti að vera hægt og maður átti að geta flogið svona sí svona, án flugvélar.
En nú er 2010 komið og enn lifi ég og tæknin ekkert svo ofsalega mikið framar en þegar ég var barn. Mest eru það tölvurnar, þær sá maður ekki fyrir og netið og farsímarnir. En lífið heldur áfram og nú erum við Bjarney dóttir mín farnar að setja okkur í stellingar fyrir hjólaferð í júli eitthvað um Vestfirðina.
Verkefnið er að ákveða dagsetningar og finna gististað þaðan sem við getum tekið hjólatúra út frá. Ég held það verði ævintýri að hjóla á þessu fallega svæði og ég held að þar geti verið kyrrð sem ekki verður upplifuð á mörgum öðrum stöðum.
Við Bjarney erum að vona að einhverjir fleiri hafi áhuga, nennu og getu til að slást í för með okkur, sumir til að hjóla með í lengri eða skemmri tíma, aðrir til að sjá hvernig gengur og vera með okkur á gististað og einhverjir til að kippa trússi með sér fyrir okkur.
Eitt er víst, þetta verður gaman.