Tuesday 7 June 2011

Að hjóla í Danmörku
Jæja þá hef ég nú smáreynslu af því að hjóla í Danmörku. Við vorum 3 vikur þar og flesta dagana hjóluðum við eitthvað. Við bjuggum lengst af í smábæ við norðurströnd Sjálands. Í fyrstu vorum við með hugmyndir um að hjóla frá Ebeltoft til Álaborgar sem eru um 120 km að mig minnir. Vegna leiðindaveðurs, kulda, rigningar og síðast en ekki síst hávaðaroks, þá hættum við við. Í staðinn hjóluðum við styttri vegalengdir á milli bæjarfélaga og með ströndinni. Engar lengri leiðir, en það var upplifun að prófa að hjóla í þessu landi hjólreiða. Mér kom á óvart hvað hjólastígar og aðstaða til hjóla var ekki eins góð og ég hafði gert mér í hugarlund. Ég hef áður hjólað í Álaborg og þar er stígakerfið ágætt sérstaklega næst miðbænum.
Núna sá ég að hjólaaðstæður eru ekkert svo mikið frábrugðnar því sem gerist hér alla vega hér á höfuðborgarsvæðinu. Sums staðar eru frábærir stígar breiðir og liggja meðfram hraðbrautum og þar er hjólað í báðar áttir og pláss gott. Annars staðar hverfa hjólastígarnir og maður verður að finna áframhaldið alveg eins og hér. Á sumum stöðum eru stígarnir malargötur og mjög mismundandi breiðar allt frá dekkjabreiddinni og að breiðum grófum malarstígum. Víða liggja stíganir alveg með hraðbrautinni og fannst mér ekki alltaf alveg nógu breiðir. Á öðrum stöðum er manni boðið að hjóla í gegnum bæjarfélög eins og t.d. á Arnarnesinu og í Kópavogi, ef viðkomandi er á leið frá Reykjavík til Hafnarfjarðar. Þannig að það er ekkert betra en hér þegar maður verður að taka langan krók á sig til að komast á milli staða.
Það sem virðist vera helsti munurinn á að hjóla í Danmörku og hér er að þar eiga hjólareiðamenn óskoraðan rétt og njóta forgangs mjög víða.
Síðan er annað, all flest hjól sem ég sá í Danmörku og það á við um hjólið sem ég var á, eru 7 gíra eða minna, afar fá eru með dempara á hnakk eða stýri og það á líka við um hjólið mitt. Í Danmörku eru líka brekkur, langar og háar og þar er oft rok. Veturnir eru kaldir þar eins og hér og jafnvel kaldari vegna rakans sem er þar en ekki hér.
Því er það niðurstaða mín, að það er ekkert erfiðara að hjóla hér en þar. Við erum á réttri leið og það eru orðnir margir góðir stígar hér sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Ef það væri gert svolítið átak í að breyta götum þannig að hjól komist betur um þá værum við í mjög fínum málum. Og svo út að hjóla!