Tuesday, 7 June 2011

Að hjóla í Danmörku
Jæja þá hef ég nú smáreynslu af því að hjóla í Danmörku. Við vorum 3 vikur þar og flesta dagana hjóluðum við eitthvað. Við bjuggum lengst af í smábæ við norðurströnd Sjálands. Í fyrstu vorum við með hugmyndir um að hjóla frá Ebeltoft til Álaborgar sem eru um 120 km að mig minnir. Vegna leiðindaveðurs, kulda, rigningar og síðast en ekki síst hávaðaroks, þá hættum við við. Í staðinn hjóluðum við styttri vegalengdir á milli bæjarfélaga og með ströndinni. Engar lengri leiðir, en það var upplifun að prófa að hjóla í þessu landi hjólreiða. Mér kom á óvart hvað hjólastígar og aðstaða til hjóla var ekki eins góð og ég hafði gert mér í hugarlund. Ég hef áður hjólað í Álaborg og þar er stígakerfið ágætt sérstaklega næst miðbænum.
Núna sá ég að hjólaaðstæður eru ekkert svo mikið frábrugðnar því sem gerist hér alla vega hér á höfuðborgarsvæðinu. Sums staðar eru frábærir stígar breiðir og liggja meðfram hraðbrautum og þar er hjólað í báðar áttir og pláss gott. Annars staðar hverfa hjólastígarnir og maður verður að finna áframhaldið alveg eins og hér. Á sumum stöðum eru stígarnir malargötur og mjög mismundandi breiðar allt frá dekkjabreiddinni og að breiðum grófum malarstígum. Víða liggja stíganir alveg með hraðbrautinni og fannst mér ekki alltaf alveg nógu breiðir. Á öðrum stöðum er manni boðið að hjóla í gegnum bæjarfélög eins og t.d. á Arnarnesinu og í Kópavogi, ef viðkomandi er á leið frá Reykjavík til Hafnarfjarðar. Þannig að það er ekkert betra en hér þegar maður verður að taka langan krók á sig til að komast á milli staða.
Það sem virðist vera helsti munurinn á að hjóla í Danmörku og hér er að þar eiga hjólareiðamenn óskoraðan rétt og njóta forgangs mjög víða.
Síðan er annað, all flest hjól sem ég sá í Danmörku og það á við um hjólið sem ég var á, eru 7 gíra eða minna, afar fá eru með dempara á hnakk eða stýri og það á líka við um hjólið mitt. Í Danmörku eru líka brekkur, langar og háar og þar er oft rok. Veturnir eru kaldir þar eins og hér og jafnvel kaldari vegna rakans sem er þar en ekki hér.
Því er það niðurstaða mín, að það er ekkert erfiðara að hjóla hér en þar. Við erum á réttri leið og það eru orðnir margir góðir stígar hér sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Ef það væri gert svolítið átak í að breyta götum þannig að hjól komist betur um þá værum við í mjög fínum málum. Og svo út að hjóla!

Tuesday, 8 February 2011

Gigtin

Hún er skrýtin þessi gigt. Ég veit aldrei hvernig hún hagar sér. Mér hefur fundist að ef ég er dugleg að hreyfa mig, hjóla/ganga hafi ég eflst og styrkst og ekki eins viðkvæm og útsett fyrir verkjum. En svo koma svona dagar eins og í dag! Gjörsamlega allt ómögulegt, verkirnir eru útum allann líkamann, helst í liðamótum það er eins og einhver með töng læðist inná liðamót og klípi þar með öllu afli í einhverjar viðkvæmar taugar. Ég get engan veginn verið, þoli ekki úr né hringa eða föt. Langar að liggja í heita pottinum en get ekki með nokkru móti hugsað mér að komast þangað. Það kostar að fara úr fötunum, fara í sturtu og þvo sér, klæða sig í sundföt og slopp og ganga síðan út í kuldann og svo að dýfa sér í yndislega svalandi heitt vatnið. En það gengur ekki því allur aðdragandinn er of mikil áreynsla þegar mér líður svona illa.
Allur skrokkurinn er eins og vatnsfylltur, hendur eru bólgnar og öll liðamót. Það er eins og ég sé með harðsperrur alls staðar. Líðanin líkt og þegar maður er með flensu og beinverki.
Svo stundum koma svona djúpar lægðir og óveður en ég finn ekki neitt? Ég veit aldrei hverju ég á von á! Þetta er afar leiðinlegt ástand, en ég hugsa samt alltaf að þetta gæti allt verið miklu verra. Og svo koma betri tímar fljótlega og ég er orðin svo sterk af hjólatúrunum sem eru svo skemmtilegir og gönguferðunum. Ég veit að ég þyrfti að drífa mig í sund öðru hvoru en það er eitthvað óskaplega erfitt að framkvæma það. Ég veit að sund myndi gera mér mjög gott. Ég var miklu duglegri hér áður fyrr að sækja sundlaugina og ég man vel hve gott það gerði mér, þannig að ef ég bætti sundlauginni við hjólatúrana og göngurnar þá væri ég í nokkuð góðum málum. Ég þarf að æsa mig upp í að langa í sund. Það er eitthvað voða erfitt að koma því inn í prógrammið.

Tuesday, 1 February 2011

Hjólreiðar og heilsufar

Ætli það séu ekki um það bil 10 ár síðan ég fór að hjóla að einhverju ráði. Ekki mikið fyrstu árin, en stigvaxandi. Nú er svo komið að ég nánast nota ekki bílinn. Fer orðið nánast allra minna ferða á hjóli. Og líkar vel.
Ég hef hugsað undanfarið hvað þetta er einstaklega þægilegur ferðamáti og allar leiðir hér innan höfuðborgarsvæðisins eru stuttar. Að nota hjól sem samgöngutæki almennt er líka hugarfar og þegar maður byrjar þá verður þetta eins konar vani. Manni finnst það fyrirhöfn að ræsa bíl, miklu einfaldara og þægilegra að stökkva á hjólið. Þar fyrir utan sparar maður mikla peninga. En auðvitað tekur það lengri tíma að fara um á hjóli og þá hef ég vinninginn þar sem ég stunda ekki lengur vinnu utan heimilis.
En stóri ávinningur hjólanotkunarinnar er heilsufarið. Fyrir u.þ.b. tveimur árum síðan var ég afar slæm af gigt og átti erfitt með allar hreyfingar, tók lyf við ýmsum hliðarverkunum gigtarinnar, s.s. svefnlyf og fleira. Þar sem lyf og ég hafa aldrei verið miklir vinir tók þetta á að nota lyf og ég barðist alltaf á móti lyfjunum auk þess sem ég finn alltaf verulega fyrir aukaverkunum. Svo smátt og smátt hef ég hætt lyfjanotkun, aukið hreyfingu og þar kemur hjólið inní. Vegna slits í liðum hefur ganga og önnur hreyfing valdið mér vanlíðan og verkjum, en að hjóla er svo mjúk hreyfing að hún veldur litlum verkjum og álagi. Með tíð og tíma hefur styrkur minn aukist, ég þarf aðeins að gæta að því að hafa aldrei þungt álag á hnén og þar koma margir gírar á hjólinu mínu að mjög góðum notum.
Nú hjóla ég 20 km án þess að finna fyrir því, það er nánast eins og upphitun nú orðið og gigtin er miklu miklu mildari við mig en áður. Auðvitað fæ ég mín slæmu köst, þegar lægðirnar raða sér utanum landið og skella sér svo hver á eftir annarri innyfir borg og byggð. Það er ekkert hægt að gera við því, en því meira sem ég hjóla því hressari verð ég. Því betur sef ég og verkirnir minnka.
Um daginn hjóluðum við hjón í Bláa lónir úr Kópavogi og það er ekki hægt að segja að ég hafi fundið fyrir því. Auðvitað þarf ég að hjóla með mínum hraða og ég þarf að stoppa oft til að hvíla. Lykillinn er að verða aldei of þreytt, hvíla heldur oftar og stutt í einu. Og það gengur mjög vel. Þann daginn hjóluðum við 92 km og vorum bara brött á eftir. Ég ætla ekki að reyna að halda því fram að ég hafi ekki fundið fyrir því, en að ég væri búin á því eins og ég átti satt að segja von á, það var fjarri lagi.
Svo framundan eru bjartari dagar og hlýrri, smátt og smátt og þá verður lagt í lengri hjólatúra eftir því sem veður og vinar leyfa. Og ef allt fer eins og áætlað verður lagt af stað í hringferðalag á hjólunum þegar sól er hæst yfir Íslandi og sest ekki allann sólarhringinn:-) Ég hlakka mikið til.

Friday, 26 November 2010

Hjólreiðar

Jæja, það er margt sem veltist í huga mér þessa dagana. Við hjón höfum hægt og bítandi aukið notkun hjólsins sem farartækis í þau erindi sem við höfum hér og þar.
Ég held að ég hafi byrjað í kjölfar átaksins "hjólað í vinnuna" að nota hjólið meira. Fyrst þótti mér þetta mikið afrek að hjóla í vinnu ca 6 km leið og fékk mikið hrós og undrunarhróp frá samstarfsfólki. Eftir mjaðmaskiptaaðgerðir á báðum mjöðmum leið nokkur tími þar til ég fór aftur að hjóla, en nú eftir að ég hætti að vinna er ég komin á fullt.
Og ég hjóla orðið flest sem ég þarf að fara. Ég hef tamið mér að fara nokkrar ferðir útí búð í viku og þá á hjólinu í staðinn fyrir eina ferð á bílnum. Smám saman þá er einhver innri hvati sem dregur mig að hjólinu og láta bílinn hvíla sig.
Við hjón hjólum mikið saman sérstaklega eftir að lítil vinna var hjá bóndanum og það er auðvitað miklu skemmtilegra. En það sem mér finnst vera að sannast á mér, er hvað þessi hreyfing og útivera er holl. Ég hef í mörg ár verið slæm af vefjagigt og slitgigt. Það er ekki langt síðan ég hélt að ég væri að fara í aðgerð á hné, var afar slæm og gat varla gengið fyrir verkjum og vanlíðan. Ég var alltaf tilbúin með verkjalyf og ég hef lengi átt við svefntruflanir að stríða, þannig að ég vakna við hvað sem er og næ ekki að sofna aftur.
Það er skemmst frá því að segja að sjúkraþjálfari hjálpaði mér verulega með hnéð með æfingum og geislum, en framhaldið hefur verið mitt. Það að hjóla og ganga hefur haft verulega góð áhrif. Svo ég finn ekki lengur til í hné, geng 10 km án vandamála fyrir utan að hjóla um 20 km og nætursvefn er sætur og góður án lyfja.
Ég trúi orðið alveg á að þetta sé málið. Ef maður finnur til einhversstaðar, þá er að hreyfa það og ganga eða hjóla og halda bara áfram, kannski ekki ef maður fótbrotnar eða þannig:-)
En líf mitt er gleðilegra með hjólinu.

Wednesday, 13 October 2010

Hjólahugleiðingar

Jæja enn er haustið svo milt að það að fara ferða sinna á hjóli er lítið mál. Ekki það að mér finnst það meira og minna lítið mál að hjóla, það er skemmtilegt og auðvelt.
Ég fæ ótrúlega mikil viðbrögð á þennan ferðamáta minn, fólk á ekki orð yfir hve dugleg ég sé. Það er alveg sama þó ég segi að það sé miklu auðveldara að hjóla heldur en fólk almennt heldur. Ég reyni að hjóla allt sem ég þarf að fara. Til dæmis hef ég tekið uppá því að fara oft í viku í Bónus og kaupa bara lítið í einu, svo ég geti auðveldlega flutt það á hjólinu, í stað þess að keyra einu sinni og gera stórinnkaup.
Einnig hjóla ég tvisvar í viku niður í Ármúla í jógatíma. Fólkið sem er með mér þar allt konur á svipuðu reki og ég, eru alveg undrandi á þessu og hætta aldrei að hrósa mér fyrir þetta. Það er ekki leiðinlegt, en ég reyni alltaf að segja þeim hversu auðvelt þetta sé. Ég tala samt alveg fyrir tómum eyrum, fólki finnst þetta vera eitthvert óskaplegt átak.
Ég held stundum að við íslendingar séu mestu aumingjar. Þar sem ég hef á undanförunum árum farið oft til Danmerkur og það á öllum árstímum, sumar, vetur, vor og haust, þá hef ég séð að þar er þetta ekki svona, fólk á öllum aldri notar hjólið til að komast á milli staða og það er sama á hvaða árstíma það er eða hvaða aldur er á fólki. Fólk yfir áttrætt notar hjól þar. Og það er ekkert bara blítt og gott veður í Dk, t.d. er vetrarveðrið þar oft verra en hér, miklu kaldar vegna rakans sem er miklu meiri en hér. Mér hefur aldrei orðið eins kalt eins og í Danmörku. Og það er líka rangt að þar sé allt slétt og fellt. Það er það alls ekki, þar eru líka brekkur og bara verulegar t.d í Álaborg þar sem ég þekki best til. Þetta hefur engin áhrif í Danmörku, fólk notar hjólin þar. Stóri munurinn er hve vel er gert við hjólareiðafólk þar. Þar er gert ráð fyrir hjólandi fólki og allst staðar eru standar fyrir hjól, en það er leitun að slíku hér á landi, t.d. við verslandir og stofnanir. Meira að segja við hjólabúðir eru ekki standar! Hvað þá að almennilegt "vegakerfi" sé til hér á landi.
En á Íslandi hefur alltaf verið viðkvæðið að veðrið væri svo vont að við yrðum öll að eiga bíla. Árni Sigfússon, hinn frægi bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sagði einhvern tímann að bíllinn væri fyrir okkur íslendinga eins og kápan hjá fólki í útlöndum. Hér væri ekkert hægt annað en að komast allt á bíl og uppað dyrum alls staðar! Þvílíkt bull.

Monday, 20 September 2010

Trú

Ég var í sumarbústað um helgina með trúuðu fólki. Eins og gjarnan vill verða fer slíkt fólk að tala um trúna og þar sem þetta fólk vissi af trúleysi mínu, "sendi það mér tóninn". Í þeirri orðræðu var minnst á að fólk sem ekki tryði, teldi sjálft sig vera æðstu verur heimsins. Ég þagði eins og venjulega í slíkum aðstæðum, því það leiðir oftast til leiðinda að ræða þessi mál, þegar mikil sannfæring er annars vegar.
Ég fór síðan að velta þessu fyrir mér í morgun. Ég hef aldrei sett í orð trúleysi mitt og ég hef ekki upplifað mig sem æðri veru, æðri en aðrir þeir sem á jörðinni eru eða í alheiminum. En þannig vildu viðmælendur mínir setja mig fyrir sér. Að við lítum á okkur sem æðstu verur. Þannig hef ég aldrei séð mig í samhengi við heiminn. Ég er bara hér, hluti af öllu hinu nú um stundir (reyndar afar stutta stund) og reyni að gera það eftir bestu getu og vitund hverju sinni.
Ég held að ég hverfi héðan eins og hin "dýrin" og þar með sé það búið. Það er ekkert endilega óskastaðan, en ég get bara ekki trúað öðru.
Mér finnst ég vera hluti af þessu lífi, sem kviknar og þróast í gegnum aldirnar, breytist eftir aðstæðum og umhverfi og hverfur svo og nýtt kemur í staðinn.
Einhvern veginn svona hugsa ég þetta, ég hef aldrei velt þessu mikið fyrir mér, en með árunum orðið afhuga kristinni trú sem og annarri guðatrú. Ég get alveg tekið undir mörg orð þeirra spámanna sem menn nota til vitnis um að guð sé til. Kristur, Múhameð, Búdda og fleiri og fleiri. Þá eru það orð um hvernig beri að lifa þessu lífi samferða ólíku fólki og öðrum dýrum. En trúin á guðinn hefur horfið hægt og bítandi og ég hef satt að segja aldrei alveg skoðað hug minn, en fór til þess nú þar sem mér fannst ósanngjarnt að mér væri ætlað að telja mig æðri og skil það ekki.

Sunday, 27 June 2010

Evrópubandalagið og Ísland

Mig langar til að Íslendingar haldi áfram með umsókn í Evrópubandalagið. Ástæðan er að megninu til vegna þess að mig langar að sjá og heyra hvað það myndi fela í sér. Ég er ekki sammála þeim háværu röddum sem vilja draga umsóknina til baka. Ég vil einmitt og tel nauðsynlegt að við förum í gegnum þetta ferli og fáum að sjá hvaða kostir og gallar fylgja inngöngunni.
Ég held að það sé svo um miklu fleiri en mig að vita hreinlega ekkert hvað innganga þýddi fyrir land og þjóð. Ég held að þjóðin hefði mjög gott af því að fara í gegnum þessa umræðu og þannig skoða kosti og galla. Ég held líka að ef við förum í þetta bandalag að þá verðum við að hlíta ýmsum lögum og reglum, sem við (stjórnmálamenn og embættismenn) höfum ekki hirt um að fara eftir hingað til. Svo sem reglur um mannaráðningar við æðstu embætti landsins.
Ég held að myntin okkar sé að flækjast fyrir okkur, að þetta litla myntkerfi sem við höfum sé of lítið og að stjórnmálamenn geti notað litlu krónuna okkar sér í hag og okkur litla fólkinu í óhag. Það er einhver pólitík að halda í krónuna, einhver furðuleg eiginhagsmuna pólitik. Ég held að með því að komast inní stærra myntsamfélag verði miklu erfiðara að hræra með fjármálamarkaðinn og að þá komist raunverulega ró á samfélag okkar. Þá geti stjórnmálamenn ekki lengur ráðskast með okkur þegnana eins og hverjar aðrar strengjabrúður.
Ég held að við ættum að fara í aðildarumsókn, ræða kosti og galla og taka upplýsta ákvörðum. Ekki láta stjórnmálastéttina segja okkur hvað okkur sé fyrir bestu. Það hefur ekki reynst okkur vel á seinustu öldum.