Sunday 14 December 2008

Magnaður 9 laugardagurinn

Það var ótrúlega mögnuð stundin við Alþingishúsið í gær. Við bjuggumst ekki við neinu og enn síður við margmenni. En viti menn, það eru margir íslendingar hugsandi. Og allt í kringum okkur stóð fólk af öllum gerðum og stærðum og steinþagði, meðan Hörður las um ártölin á mínútufresti. Mér leið vel með þetta!
Við verðum að halda áfram, við megum ekki hætta, þessi ríkisstjórn, sem átti að stoppa ósómann í tíma, brást okkur og þá verður hún að fara. Það er einfalt og hún verður að fara strax. Á meðan kemur inn fólk með þekkingu sem stýrir þar til kosningar fara fram í vor.
Við hinn venjulegi íslendingur verðum að halda áfram að mótmæla með öllum vopnum, án ofbeldis. Ég er mjög ánægð með stýringu Harðar á þessum mótmælum en vildi að hópurinn sem kennir sig við raddir fólksins fari að skýra betur heimasíðuna sína svo maður geti farið að taka betri þátt og verða gerandi í mótmælunum. Þau þurfa að fara að verða fyrirferðameiri og tíminn er eftir áramót. Þá byrjar þetta fyrir alvöru, án ofbeldis.

Thursday 4 December 2008

Davíð enn og aftur

Alveg er þetta með eindæmum með þennan Davíð. Í mörg mörg ár hefur þessi maður gengið um eins og sá sem alvaldið hefur. Frá honum hefur stafað kuldagustur af hroka og lítilsvirðingu fyrir samferðafólkinu, þannig að erfitt er að skilja hvers vegna venjulegt fólk hefur viljað gefa honum atkvæði sitt. Þannig hefur það nú samt verið.
Flestir héldu nú að þeir væru lausir við manninn þegar hann gróf sig niður í Svörtuloftum að halda utan um budduna, en alltaf skal hann koma uppá yfirborðið með sama hrokafulla hættinum og í gegnum tíðina hefur mér fundist allt snúast um það sem hann segir og gerir! Eða er þetta algjör misskilningur hjá mér?
Hann segir nú sjálfur að hann hafi séð hrun bankanna fyrir lifandis löngu og sífellt verið að láta vita, aðvara þjóðina og stjórnina og fjármálaeftirlitið. En það hafi bara ekki verið hlustað eða tekið mark á honum! Ég spyr, trúir þessu einhver?