Wednesday 18 November 2009

Ótrúlegt veður undanfarið hefur gert það að verkum að jólaskapið bíður örlítið lengur. Ég gæti alveg hugsað mér snjó til að fá meiri jólatilfinningu. En það er nú alveg nægur tími enn. Ég er þessa dagana að taka gestaherbergið í gegn, pússa, spartla og mála gluggann, hvítta panelinn, mála ofninn og síðan að kaupa parkett og leggja. Herbergið verður mikið breytt eftir þetta þar sem panellinn var farin að dökkna mikið. Það verður munur fyrir dönsku fjölskylduna að gista þarna yfir áramótin.
Nóvember, einn enn afmælismánuðurinn er senn að líða og bara 3 afmæli eftir. Það er auðvitað gaman að hittast í afmælisveislum hvert hjá öðru, en það er svo skrýtið með þessa fjölskyldu mína að fæðingar hafa raðast á nokkra mánuði, en síðan koma aðrir mánuðir þar sem engin á afmæli, þannig eru 6 afmæli í ágúst, 7 í september og 5 í nóvember. En þetta er nú allt ánægjulegt og gott.
Vegna þessa yndislega veðurs þá auðvitað verður veturinn miklu styttri, ef hægt er að segja svo. Það er miklu léttara þegar veðrið er svona blítt. Samt hefur mér alltaf þótt gaman að fá stórbyl og óveður, mér finnst gaman að klæða mig út og ganga í stórhríð og blindbyl, en slíkt veður kemur varla orðið meir.
En þetta er ágætt.

Wednesday 4 November 2009

Ilmur af jólum

Ég veit að enn er langt til jóla, nóvember rétt að byrja, en nú þarf ég að fara að baka írsku jólakökuna mína og þegar fer að dimma svona mikið þá kemst ég ósjálfrátt í jólaskap. Ég ætla að fara að finna seríur og setja í gluggana. Það er svo notalegt í öllu myrkrinu.
Nú hef ég skipulagt smá jólahlaðborð með afkomendum mínum og hlakka verulega til þess. Við ætlum að borða góðan mat og síðan ætlum við að prófa að skera út í laufabrauð og steikja. Þetta verður reglulega skemmtilegt.
Í ár verðum við heima á jólunum og síðan koma danirnir okkar milli jóla og nýjárs og verða yfir áramótin. Það er ávallt sérstakt að fá að hafa alla fjölskylduna saman, þar sem einn meðlimurinn er búsettur í útlöndum, er það sérstakt þegar við náum öllum saman og það líkar mér mjög vel. Ég er svo einstaklega heppin í þessu lífi að eiga svo einstök börn og afkomendur þeirra og makar ekki verri.