Monday 20 September 2010

Trú

Ég var í sumarbústað um helgina með trúuðu fólki. Eins og gjarnan vill verða fer slíkt fólk að tala um trúna og þar sem þetta fólk vissi af trúleysi mínu, "sendi það mér tóninn". Í þeirri orðræðu var minnst á að fólk sem ekki tryði, teldi sjálft sig vera æðstu verur heimsins. Ég þagði eins og venjulega í slíkum aðstæðum, því það leiðir oftast til leiðinda að ræða þessi mál, þegar mikil sannfæring er annars vegar.
Ég fór síðan að velta þessu fyrir mér í morgun. Ég hef aldrei sett í orð trúleysi mitt og ég hef ekki upplifað mig sem æðri veru, æðri en aðrir þeir sem á jörðinni eru eða í alheiminum. En þannig vildu viðmælendur mínir setja mig fyrir sér. Að við lítum á okkur sem æðstu verur. Þannig hef ég aldrei séð mig í samhengi við heiminn. Ég er bara hér, hluti af öllu hinu nú um stundir (reyndar afar stutta stund) og reyni að gera það eftir bestu getu og vitund hverju sinni.
Ég held að ég hverfi héðan eins og hin "dýrin" og þar með sé það búið. Það er ekkert endilega óskastaðan, en ég get bara ekki trúað öðru.
Mér finnst ég vera hluti af þessu lífi, sem kviknar og þróast í gegnum aldirnar, breytist eftir aðstæðum og umhverfi og hverfur svo og nýtt kemur í staðinn.
Einhvern veginn svona hugsa ég þetta, ég hef aldrei velt þessu mikið fyrir mér, en með árunum orðið afhuga kristinni trú sem og annarri guðatrú. Ég get alveg tekið undir mörg orð þeirra spámanna sem menn nota til vitnis um að guð sé til. Kristur, Múhameð, Búdda og fleiri og fleiri. Þá eru það orð um hvernig beri að lifa þessu lífi samferða ólíku fólki og öðrum dýrum. En trúin á guðinn hefur horfið hægt og bítandi og ég hef satt að segja aldrei alveg skoðað hug minn, en fór til þess nú þar sem mér fannst ósanngjarnt að mér væri ætlað að telja mig æðri og skil það ekki.

3 comments:

Eyrún said...

Amen! ;) Vel sagt mín kæra amma.

abelinahulda said...

Finnst þér það? Gott að heyra, en ég er enn að velta þessu fram og til baka með sjálfri mér.

Bjarney Halldórsdóttir said...

Vel skrifað og ég get tekið undir allt sem þú segir. Svona einhvernvegin er mín tilfinning líka.