Wednesday 13 October 2010

Hjólahugleiðingar

Jæja enn er haustið svo milt að það að fara ferða sinna á hjóli er lítið mál. Ekki það að mér finnst það meira og minna lítið mál að hjóla, það er skemmtilegt og auðvelt.
Ég fæ ótrúlega mikil viðbrögð á þennan ferðamáta minn, fólk á ekki orð yfir hve dugleg ég sé. Það er alveg sama þó ég segi að það sé miklu auðveldara að hjóla heldur en fólk almennt heldur. Ég reyni að hjóla allt sem ég þarf að fara. Til dæmis hef ég tekið uppá því að fara oft í viku í Bónus og kaupa bara lítið í einu, svo ég geti auðveldlega flutt það á hjólinu, í stað þess að keyra einu sinni og gera stórinnkaup.
Einnig hjóla ég tvisvar í viku niður í Ármúla í jógatíma. Fólkið sem er með mér þar allt konur á svipuðu reki og ég, eru alveg undrandi á þessu og hætta aldrei að hrósa mér fyrir þetta. Það er ekki leiðinlegt, en ég reyni alltaf að segja þeim hversu auðvelt þetta sé. Ég tala samt alveg fyrir tómum eyrum, fólki finnst þetta vera eitthvert óskaplegt átak.
Ég held stundum að við íslendingar séu mestu aumingjar. Þar sem ég hef á undanförunum árum farið oft til Danmerkur og það á öllum árstímum, sumar, vetur, vor og haust, þá hef ég séð að þar er þetta ekki svona, fólk á öllum aldri notar hjólið til að komast á milli staða og það er sama á hvaða árstíma það er eða hvaða aldur er á fólki. Fólk yfir áttrætt notar hjól þar. Og það er ekkert bara blítt og gott veður í Dk, t.d. er vetrarveðrið þar oft verra en hér, miklu kaldar vegna rakans sem er miklu meiri en hér. Mér hefur aldrei orðið eins kalt eins og í Danmörku. Og það er líka rangt að þar sé allt slétt og fellt. Það er það alls ekki, þar eru líka brekkur og bara verulegar t.d í Álaborg þar sem ég þekki best til. Þetta hefur engin áhrif í Danmörku, fólk notar hjólin þar. Stóri munurinn er hve vel er gert við hjólareiðafólk þar. Þar er gert ráð fyrir hjólandi fólki og allst staðar eru standar fyrir hjól, en það er leitun að slíku hér á landi, t.d. við verslandir og stofnanir. Meira að segja við hjólabúðir eru ekki standar! Hvað þá að almennilegt "vegakerfi" sé til hér á landi.
En á Íslandi hefur alltaf verið viðkvæðið að veðrið væri svo vont að við yrðum öll að eiga bíla. Árni Sigfússon, hinn frægi bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sagði einhvern tímann að bíllinn væri fyrir okkur íslendinga eins og kápan hjá fólki í útlöndum. Hér væri ekkert hægt annað en að komast allt á bíl og uppað dyrum alls staðar! Þvílíkt bull.