Friday 26 November 2010

Hjólreiðar

Jæja, það er margt sem veltist í huga mér þessa dagana. Við hjón höfum hægt og bítandi aukið notkun hjólsins sem farartækis í þau erindi sem við höfum hér og þar.
Ég held að ég hafi byrjað í kjölfar átaksins "hjólað í vinnuna" að nota hjólið meira. Fyrst þótti mér þetta mikið afrek að hjóla í vinnu ca 6 km leið og fékk mikið hrós og undrunarhróp frá samstarfsfólki. Eftir mjaðmaskiptaaðgerðir á báðum mjöðmum leið nokkur tími þar til ég fór aftur að hjóla, en nú eftir að ég hætti að vinna er ég komin á fullt.
Og ég hjóla orðið flest sem ég þarf að fara. Ég hef tamið mér að fara nokkrar ferðir útí búð í viku og þá á hjólinu í staðinn fyrir eina ferð á bílnum. Smám saman þá er einhver innri hvati sem dregur mig að hjólinu og láta bílinn hvíla sig.
Við hjón hjólum mikið saman sérstaklega eftir að lítil vinna var hjá bóndanum og það er auðvitað miklu skemmtilegra. En það sem mér finnst vera að sannast á mér, er hvað þessi hreyfing og útivera er holl. Ég hef í mörg ár verið slæm af vefjagigt og slitgigt. Það er ekki langt síðan ég hélt að ég væri að fara í aðgerð á hné, var afar slæm og gat varla gengið fyrir verkjum og vanlíðan. Ég var alltaf tilbúin með verkjalyf og ég hef lengi átt við svefntruflanir að stríða, þannig að ég vakna við hvað sem er og næ ekki að sofna aftur.
Það er skemmst frá því að segja að sjúkraþjálfari hjálpaði mér verulega með hnéð með æfingum og geislum, en framhaldið hefur verið mitt. Það að hjóla og ganga hefur haft verulega góð áhrif. Svo ég finn ekki lengur til í hné, geng 10 km án vandamála fyrir utan að hjóla um 20 km og nætursvefn er sætur og góður án lyfja.
Ég trúi orðið alveg á að þetta sé málið. Ef maður finnur til einhversstaðar, þá er að hreyfa það og ganga eða hjóla og halda bara áfram, kannski ekki ef maður fótbrotnar eða þannig:-)
En líf mitt er gleðilegra með hjólinu.

No comments: