Thursday 4 March 2010

Vor vor vor

Allir árstímar eru skemmtilegir fyrir minn smekk. Á haustinn hefur rómantíkin völd, þá fer fólk að kveikja ljósin aftur og kertaljósin sem setja svo róandi svip á allt. Þá er uppskeran, ber og ávextir og grænmeti og undirbúningur fyrir veturinn. Slátur og svo framvegis. Veturinn hefur jólin. Jólin sem gera það mögulegt að þrauka langa, dimma, kalda vetrardaga. Jól okkar norrænna manna sem fagna því að jörðin hefur sig aftur í átt til sólar fyrir okkur á norðurhvelinu. Vorið er síðan það allra mest spennandi. Það er endalaus tilhlökkun sem kviknar við það að sólin hækkar og hækkar á lofti fyrst hægt en síðan hraðar og hraðar og birtan tekur völdin. Gróðurinn tekur við sér og mannfólkið kíkir eftir því hvort þessi eða hin plantan komi nú ekki örugglega upp, hvort hún hafi ekki lifað þetta af. Síðan er það sáning fræja og ótrúin á að þetta verði nú eitthvað, klipping trjáa og runna, útivera. Já vorið er yndislegt, svo yndislegt.
Þórbergur Þórðarson sagði að skammdeginu lyki þann 10. mars, við ættum að gera þann dag að hátíðisdegi. Ég ætla að gera þann dag að hátíðisdegi í framtíðinni. Baka pönnukökur eins og þeir gera fyrir vestan og norðan þegar sólin sést í fyrsta sinn á vorin. Já, vorið er yndislegt.