Friday 10 July 2009

Á ferð um landið bláa

Við erum komin heim eftir yndislega 10 daga ferð um landið með "nýja" tjaldvagninn okkar. Ferðin var hreint dásamleg, næstum alltaf gott veður og fegurð þessa lands er mikil, það eitt er vist. Við vorum að mestu á norður og austurlandi, skoðuðum marga eftirminnilega staði, bæði söfn og svo bara landið sjálft.
Ég er nokkuð hugsi yfir tjaldstæðunum þó, það kostar mismikið að nota þau, frá því að kosta ekkert á minni stöðunum, þar sem ágæt aðstaða er samt, klósett og vaskar, rennandi vatn (kalt) og uppí 900 kr fyrir manninn þar sem það var dýrast. Þetta var á Egilsstöðum, en þar fannst mér aðstaðan verst. Tjaldsvæðið sjálft er afleitt, allt í þúfum, blautt (enginn rigning) og subbulegt og óhirt, bæði svæðið sjálft sem og borð og bekkir. Annað uppá teningunum bæði á Höfn sem og á Krikjubæjarklaustri, en þar er allt til mikillar fyrirmyndar. Ágætt á Vopnafirði og einnig á Djúpavogi.
Það sem hafið mikil áhrif á mig var setning sem ég las og höfð er eftir Gunnari Gunnarssyni. Við komum við á Skriðuklaustri sem er safn um Gunnar. Á einum veggnum hafði verið komið fyrir brotum úr bókum hans og þar var þessi gullvæga setning, sem ég hef oft verið að reyna að setja fram í mörgum orðum. Því miður get ég ekki haft setninguna eftir orðrétt, því ég skrifaði hana ekki upp, en hún hljómar eitthvað svona; " enginn íslendingur getur verið fjarri hvíta landinu án þess að bíða af því skaða á sálinni". Eitthvað svona hljómaði þessi setning, en ég hef oft verið að reyna að lýsa því hvað mér finnst útrásarvíkingarnir hafa fengið makleg málagjöld, sem er útlegðin frá landinu sínu. Ég held að það sé þyngsta refsing sem íslendingur getur fengið!