Wednesday 26 November 2008

tilraun enn og aftur

Það er greinilegt að sú sem "heldur hér á penna", er að nálgast sjötugs aldurinn! Ótrúlega sein að læra á nýja hluti í tölvuheimum. Ef ég hefði ekki svona marga þolinmóða og klára "krakka" í kringum mig, sem nenna að segja mér endalaust til þá væri ég ekkert í þessum tölvuheimum að leika mér.
En þetta er gaman og aldrei að vita nema maður haldi þessu áfram og skrái hugsanir sem margar hverjar eru orðnar ansi miklar í öllu þessu fári sem gengur hér um okkar tíma.
Það er nokkuð merkilegt að setja þetta í samhengi við tímana sem eiginmaðurinn las um fyrir mig í gærkvöldi. Hann fór inná Morgunblaðið í nóvember 1918, en þá dó föðuramma hans, 34 ára frá 7 ungum börnum. Á þessum tíma í blaðinu eru settar fram tilkynningar um þá sem dáið höfðu síðasta sólarhringinn. Þar er verið að lýsa því þegar menn eru að ganga um Reykjavík, með hestvagna og taka lík um bæinn og vegna hálku þurfa þeir nánast að halda klárnum og vagninum uppi. Þessi staðreynd er mjög ógnvekjandi, en auðvitað getum við ekki borið þetta á neinn hátt saman við það sem er að gerast nú og eigum ekki að gera það. Vonandi eigum við ekki eftir að lifa slíka tíma aftur. En framkoma stjórnvalda við almenning nú verður aldrei réttlætt.

2 comments:

Bjarney Halldórsdóttir said...

Er það ekki þannig að það er ekki ástandið akkúrat núna sem er slæmt, það er framtíðin.

Margri hafa málað myndina næstu 2 árin eða meira ansi svart - fjöldagjaldþrot bæði fyrirtækja og einstaklinga, vöruskortur, börn fá ekki mat nema í skólum (sbr. finnsku leiðina), margir missi heimilin og vinnuna.

En verður þetta svona? Er það óumflýjanlegt? Eða er þetta lúxusvandamál okkar dekurdýranna eftir gróðærið?
Sumir segja okkur fara 6 ár aftur í tímann, ég hafði það ekki slæmt fyrir 6 árum síðan.

Hverju á að trúa? Margir eru núna að missa vinnuna, en á móti vantar ekki lengur fólk til að sinna börnunum okkar á leikskólum og skólum og gamlingjunum á elliheimilinum. Það er gott.

Hvað á maður að halda? Framtíðin er óviss en við getum ekki annað en haldið áfram inn í óvissuna - frekar en áður.
Svo ég held bara áfram að hjóla í vinnuna og prjóna mér til skemmtunar og vona það besta.

abelinahulda said...

Já satt segir þú Bjarney mín, við getum ekki gert neitt annað en haldið áfram eins og áður en auðvitað eigum við að halda áfram að mæta á mótmælafundi og styðja við það fólk sem kemur nú fram með góðar hugmyndir. En það sem þarf að gera er að koma stjórnvöldum frá, því þau hafa setið of lengi og talið að sætin væru þeirra. Það er ekki lýðræði. Í raunverulegu lýðræði er hægt að reka stjórnir og skipa nýjar. Og það er verkefni framtíðarinnar.