Sunday 25 January 2009

Góðir íslendingar!

Þetta er svo flott ávarp!
Nú eru sögulegir tímar. Komandi kynslóðir munu vísa í Búsáhaldabyltinguna, sem braut á bak aftur staðnað og óréttlátt feðraveldi hins unga lýðveldis Íslands. Lýðveldið Ísland er aðeins 65 ára og hefur gengið sér til húðar, þar sem óreiðumenn fengu að eyða og sóa fé landsmanna til eigin hagsmuna og gróða. Þeir hafa fengið að fara með mannorð okkar þannig að flestir íslendingar fyrirverða sig fyrir þjóðerni sitt!
En það er von! Nýtt lýðveldi, er heiti á samtökum, sem þó nokkrir hafa komið á laggirnar. Þeirra hugmyndir eru að hér skuli komið á Neyðarstjórn til að stýra þjóðaskútunni yfir boðaföllin næstu mánuði og misseri. Á sama tíma verði hópur manna valin til að endurskoða stjórnarskrá Íslands sem mikil þörf er á, þar sem margir gallar eru á þeirri sem notast hefur verið við í þessi 65 ár án nokkurra verulegra breytinga.
Þar á að leggja áherslu á að landið verði eitt kjördæmi (öll atkvæði hafi jafnt vægi), að ráðherrar séu ekki einnig alþingismenn og þeir mega ekki sitja í nefndum og ráðum útum allann bæ eins og nú tíðkast.
Ég trúi því að mikill meirihluti þjóðarinnar sé hlynntur þessum hugmyndum og ég hvet alla til að fara inná vef þessara samtaka nyttlydveldi.is og kynna sér það sem þar er krafist og helst af öllu skrifa undir áskorunina!
Heill og hamingja leiði okkur næstu mánuði, áfram Ísland

No comments: