Saturday 24 January 2009

16. fundurinn

Ég græt næstum, því ég gat ekki verið á fundinum í dag. Ég var svo sannarlega með í huga og ekki skemmdi fyrir að fá að hlusta á fundinn í beinni á rás 2. ÉG græt líka næstum yfir því hve margir mættu (það var gleiðigrátur) og svo fékk ég beint í æð frá Bjarneyju (sms) hve stemmningin væri góð. En bakverkir og þreyta eftir erfiða nótt (svaf illa fyrir verkjum) hömluðu mér frá að vera með í dag. Það var mjög erfitt.
Ég hef sagt að ég er appelsínugul, því ég vil ekki beita ofbeldi né dónaskap gagnvart fólki, það er í lagi að steyta hnefa og hrópa, slá saman pottum og pönnum, en að vera með ógnandi tilburði gagnvart fólki, þar kemur að mínum mörkum!
Ég er líka hvít, því samtökin fyrir nýju lýðveldi skreyta sig með hvítum borða og ég ætla að lýsa yfir skoðun minni á því hve mikilvægt er að nú verði hreinsað til í stofnunum landsins og ný stjórnarskrá samin, með því að skarta hvítum borðum. Ný stjórnarskrá, neyðarstjórn sett á laggirnar strax og stjórnum fjármálastofnana komið undir neyðarstjórnina strax! Áfram Ísland!

No comments: