Tuesday 1 February 2011

Hjólreiðar og heilsufar

Ætli það séu ekki um það bil 10 ár síðan ég fór að hjóla að einhverju ráði. Ekki mikið fyrstu árin, en stigvaxandi. Nú er svo komið að ég nánast nota ekki bílinn. Fer orðið nánast allra minna ferða á hjóli. Og líkar vel.
Ég hef hugsað undanfarið hvað þetta er einstaklega þægilegur ferðamáti og allar leiðir hér innan höfuðborgarsvæðisins eru stuttar. Að nota hjól sem samgöngutæki almennt er líka hugarfar og þegar maður byrjar þá verður þetta eins konar vani. Manni finnst það fyrirhöfn að ræsa bíl, miklu einfaldara og þægilegra að stökkva á hjólið. Þar fyrir utan sparar maður mikla peninga. En auðvitað tekur það lengri tíma að fara um á hjóli og þá hef ég vinninginn þar sem ég stunda ekki lengur vinnu utan heimilis.
En stóri ávinningur hjólanotkunarinnar er heilsufarið. Fyrir u.þ.b. tveimur árum síðan var ég afar slæm af gigt og átti erfitt með allar hreyfingar, tók lyf við ýmsum hliðarverkunum gigtarinnar, s.s. svefnlyf og fleira. Þar sem lyf og ég hafa aldrei verið miklir vinir tók þetta á að nota lyf og ég barðist alltaf á móti lyfjunum auk þess sem ég finn alltaf verulega fyrir aukaverkunum. Svo smátt og smátt hef ég hætt lyfjanotkun, aukið hreyfingu og þar kemur hjólið inní. Vegna slits í liðum hefur ganga og önnur hreyfing valdið mér vanlíðan og verkjum, en að hjóla er svo mjúk hreyfing að hún veldur litlum verkjum og álagi. Með tíð og tíma hefur styrkur minn aukist, ég þarf aðeins að gæta að því að hafa aldrei þungt álag á hnén og þar koma margir gírar á hjólinu mínu að mjög góðum notum.
Nú hjóla ég 20 km án þess að finna fyrir því, það er nánast eins og upphitun nú orðið og gigtin er miklu miklu mildari við mig en áður. Auðvitað fæ ég mín slæmu köst, þegar lægðirnar raða sér utanum landið og skella sér svo hver á eftir annarri innyfir borg og byggð. Það er ekkert hægt að gera við því, en því meira sem ég hjóla því hressari verð ég. Því betur sef ég og verkirnir minnka.
Um daginn hjóluðum við hjón í Bláa lónir úr Kópavogi og það er ekki hægt að segja að ég hafi fundið fyrir því. Auðvitað þarf ég að hjóla með mínum hraða og ég þarf að stoppa oft til að hvíla. Lykillinn er að verða aldei of þreytt, hvíla heldur oftar og stutt í einu. Og það gengur mjög vel. Þann daginn hjóluðum við 92 km og vorum bara brött á eftir. Ég ætla ekki að reyna að halda því fram að ég hafi ekki fundið fyrir því, en að ég væri búin á því eins og ég átti satt að segja von á, það var fjarri lagi.
Svo framundan eru bjartari dagar og hlýrri, smátt og smátt og þá verður lagt í lengri hjólatúra eftir því sem veður og vinar leyfa. Og ef allt fer eins og áætlað verður lagt af stað í hringferðalag á hjólunum þegar sól er hæst yfir Íslandi og sest ekki allann sólarhringinn:-) Ég hlakka mikið til.

2 comments:

Bjarney Halldórsdóttir said...

Mamma þetta eru frábær skirf hjá þér og mikill sannleikur. Þeir hjá Fjallahjólaklúbbnum eru að óska eftir efni í blaðið og mér finnst þessi grein eiga erindi þangað.

Gaman að því hvernig nýr heimur opnast fyrir fólki þegar það uppgötvar hjólið upp á nýtt.

abelinahulda said...

Takk fyrir það Bjarney mín, ég hef verið að hugsa um að ganga í Fjallahjólaklúbbinn, aðallega til að læra af reynslu þess fólks sem þar er. Fá ráð fyrir hringferðina og fleira.
Mig langar að mæta á fimmtudaginn á opið hús hjá þeim, ég bara gleymi alltaf þessum fundum. Ætla að reyna núna á fimmtudag.