Wednesday 18 November 2009

Ótrúlegt veður undanfarið hefur gert það að verkum að jólaskapið bíður örlítið lengur. Ég gæti alveg hugsað mér snjó til að fá meiri jólatilfinningu. En það er nú alveg nægur tími enn. Ég er þessa dagana að taka gestaherbergið í gegn, pússa, spartla og mála gluggann, hvítta panelinn, mála ofninn og síðan að kaupa parkett og leggja. Herbergið verður mikið breytt eftir þetta þar sem panellinn var farin að dökkna mikið. Það verður munur fyrir dönsku fjölskylduna að gista þarna yfir áramótin.
Nóvember, einn enn afmælismánuðurinn er senn að líða og bara 3 afmæli eftir. Það er auðvitað gaman að hittast í afmælisveislum hvert hjá öðru, en það er svo skrýtið með þessa fjölskyldu mína að fæðingar hafa raðast á nokkra mánuði, en síðan koma aðrir mánuðir þar sem engin á afmæli, þannig eru 6 afmæli í ágúst, 7 í september og 5 í nóvember. En þetta er nú allt ánægjulegt og gott.
Vegna þessa yndislega veðurs þá auðvitað verður veturinn miklu styttri, ef hægt er að segja svo. Það er miklu léttara þegar veðrið er svona blítt. Samt hefur mér alltaf þótt gaman að fá stórbyl og óveður, mér finnst gaman að klæða mig út og ganga í stórhríð og blindbyl, en slíkt veður kemur varla orðið meir.
En þetta er ágætt.

3 comments:

Eyrún said...

Hrikalega eruð þið að gera mikið við þetta herbergi, ég býst við að þetta er herbergið til hægri, hjá tröppunum/stiganum. En ég hlakka til að sjá þetta þegar það er allt tilbúið!
-Eyrún

abelinahulda said...

Já Eyrún mín, þú hefur rétt fyrir þér, við erum að tala um herbergið sem áður var skrifstofan hans afa þíns. Nú ætlum við að hafa það sem gestaherbergi.
Græna stofan verður að hýsa skrifstofuna og þar ætlum við að hafa sjónvarpið og lazy boy stólana og svo kannski lítið vinnuborð fyrir mig:-)

Bjarney Halldórsdóttir said...

Verður spennandi að sjá herbergið tilbúði.
Það er alltafskemmtilegast þegar maður hefur mátulega mikið fyrir stafni.

Er sammála þér með snjóinn, það væri gaman að fá smá snjó, munar líka svo um birtuna frá honum.