Tuesday 8 February 2011

Gigtin

Hún er skrýtin þessi gigt. Ég veit aldrei hvernig hún hagar sér. Mér hefur fundist að ef ég er dugleg að hreyfa mig, hjóla/ganga hafi ég eflst og styrkst og ekki eins viðkvæm og útsett fyrir verkjum. En svo koma svona dagar eins og í dag! Gjörsamlega allt ómögulegt, verkirnir eru útum allann líkamann, helst í liðamótum það er eins og einhver með töng læðist inná liðamót og klípi þar með öllu afli í einhverjar viðkvæmar taugar. Ég get engan veginn verið, þoli ekki úr né hringa eða föt. Langar að liggja í heita pottinum en get ekki með nokkru móti hugsað mér að komast þangað. Það kostar að fara úr fötunum, fara í sturtu og þvo sér, klæða sig í sundföt og slopp og ganga síðan út í kuldann og svo að dýfa sér í yndislega svalandi heitt vatnið. En það gengur ekki því allur aðdragandinn er of mikil áreynsla þegar mér líður svona illa.
Allur skrokkurinn er eins og vatnsfylltur, hendur eru bólgnar og öll liðamót. Það er eins og ég sé með harðsperrur alls staðar. Líðanin líkt og þegar maður er með flensu og beinverki.
Svo stundum koma svona djúpar lægðir og óveður en ég finn ekki neitt? Ég veit aldrei hverju ég á von á! Þetta er afar leiðinlegt ástand, en ég hugsa samt alltaf að þetta gæti allt verið miklu verra. Og svo koma betri tímar fljótlega og ég er orðin svo sterk af hjólatúrunum sem eru svo skemmtilegir og gönguferðunum. Ég veit að ég þyrfti að drífa mig í sund öðru hvoru en það er eitthvað óskaplega erfitt að framkvæma það. Ég veit að sund myndi gera mér mjög gott. Ég var miklu duglegri hér áður fyrr að sækja sundlaugina og ég man vel hve gott það gerði mér, þannig að ef ég bætti sundlauginni við hjólatúrana og göngurnar þá væri ég í nokkuð góðum málum. Ég þarf að æsa mig upp í að langa í sund. Það er eitthvað voða erfitt að koma því inn í prógrammið.

2 comments:

Bjarney Halldórsdóttir said...

Elsku mamma mín.
Mikið vildi maður geta eitthvað gert til að lina slíkar þjáningar. En það er greinilegt að gigtin lætur ekki að sér hæða.
Þið pabbi gerið allt sem ráðlagt er; borðið heilsusamlega og hreyfið ykkur regluglega en samt lætur gigtarpúkinn þig ekki í friði. En ég er viss um að með þessum lifnaðarháttum náir þú að halda henni betur niðri eða ég vona það að minnsta kosti.

Vonandi ertu betri í dag en í gær.

Eyrún said...

Vertu blessuð og sæl amma mín. Mér sárnar það í brjósti að þér hafi liðið svona illa. En mig langaði að spyrja þig afhverju ég er ekki inná þessum lista þínum yfir bloggara????? :( Mig langar að vera það.... ég er með þig...

Þín
-Eyrún