Wednesday 18 November 2009

Ótrúlegt veður undanfarið hefur gert það að verkum að jólaskapið bíður örlítið lengur. Ég gæti alveg hugsað mér snjó til að fá meiri jólatilfinningu. En það er nú alveg nægur tími enn. Ég er þessa dagana að taka gestaherbergið í gegn, pússa, spartla og mála gluggann, hvítta panelinn, mála ofninn og síðan að kaupa parkett og leggja. Herbergið verður mikið breytt eftir þetta þar sem panellinn var farin að dökkna mikið. Það verður munur fyrir dönsku fjölskylduna að gista þarna yfir áramótin.
Nóvember, einn enn afmælismánuðurinn er senn að líða og bara 3 afmæli eftir. Það er auðvitað gaman að hittast í afmælisveislum hvert hjá öðru, en það er svo skrýtið með þessa fjölskyldu mína að fæðingar hafa raðast á nokkra mánuði, en síðan koma aðrir mánuðir þar sem engin á afmæli, þannig eru 6 afmæli í ágúst, 7 í september og 5 í nóvember. En þetta er nú allt ánægjulegt og gott.
Vegna þessa yndislega veðurs þá auðvitað verður veturinn miklu styttri, ef hægt er að segja svo. Það er miklu léttara þegar veðrið er svona blítt. Samt hefur mér alltaf þótt gaman að fá stórbyl og óveður, mér finnst gaman að klæða mig út og ganga í stórhríð og blindbyl, en slíkt veður kemur varla orðið meir.
En þetta er ágætt.

Wednesday 4 November 2009

Ilmur af jólum

Ég veit að enn er langt til jóla, nóvember rétt að byrja, en nú þarf ég að fara að baka írsku jólakökuna mína og þegar fer að dimma svona mikið þá kemst ég ósjálfrátt í jólaskap. Ég ætla að fara að finna seríur og setja í gluggana. Það er svo notalegt í öllu myrkrinu.
Nú hef ég skipulagt smá jólahlaðborð með afkomendum mínum og hlakka verulega til þess. Við ætlum að borða góðan mat og síðan ætlum við að prófa að skera út í laufabrauð og steikja. Þetta verður reglulega skemmtilegt.
Í ár verðum við heima á jólunum og síðan koma danirnir okkar milli jóla og nýjárs og verða yfir áramótin. Það er ávallt sérstakt að fá að hafa alla fjölskylduna saman, þar sem einn meðlimurinn er búsettur í útlöndum, er það sérstakt þegar við náum öllum saman og það líkar mér mjög vel. Ég er svo einstaklega heppin í þessu lífi að eiga svo einstök börn og afkomendur þeirra og makar ekki verri.

Friday 10 July 2009

Á ferð um landið bláa

Við erum komin heim eftir yndislega 10 daga ferð um landið með "nýja" tjaldvagninn okkar. Ferðin var hreint dásamleg, næstum alltaf gott veður og fegurð þessa lands er mikil, það eitt er vist. Við vorum að mestu á norður og austurlandi, skoðuðum marga eftirminnilega staði, bæði söfn og svo bara landið sjálft.
Ég er nokkuð hugsi yfir tjaldstæðunum þó, það kostar mismikið að nota þau, frá því að kosta ekkert á minni stöðunum, þar sem ágæt aðstaða er samt, klósett og vaskar, rennandi vatn (kalt) og uppí 900 kr fyrir manninn þar sem það var dýrast. Þetta var á Egilsstöðum, en þar fannst mér aðstaðan verst. Tjaldsvæðið sjálft er afleitt, allt í þúfum, blautt (enginn rigning) og subbulegt og óhirt, bæði svæðið sjálft sem og borð og bekkir. Annað uppá teningunum bæði á Höfn sem og á Krikjubæjarklaustri, en þar er allt til mikillar fyrirmyndar. Ágætt á Vopnafirði og einnig á Djúpavogi.
Það sem hafið mikil áhrif á mig var setning sem ég las og höfð er eftir Gunnari Gunnarssyni. Við komum við á Skriðuklaustri sem er safn um Gunnar. Á einum veggnum hafði verið komið fyrir brotum úr bókum hans og þar var þessi gullvæga setning, sem ég hef oft verið að reyna að setja fram í mörgum orðum. Því miður get ég ekki haft setninguna eftir orðrétt, því ég skrifaði hana ekki upp, en hún hljómar eitthvað svona; " enginn íslendingur getur verið fjarri hvíta landinu án þess að bíða af því skaða á sálinni". Eitthvað svona hljómaði þessi setning, en ég hef oft verið að reyna að lýsa því hvað mér finnst útrásarvíkingarnir hafa fengið makleg málagjöld, sem er útlegðin frá landinu sínu. Ég held að það sé þyngsta refsing sem íslendingur getur fengið!

Saturday 13 June 2009

Jurtatínsla

Fór í dag í sérlega skemmtilega ferð suður með sjó að tína lækningajurtir með grasalækninum Ásdísi Rögnu Einarsdóttur. Það var góð þáttaka í þessa ferð og lagt af stað frá Keflavík í þurru og skemmtlegu veðri.
Við fórum á þrjá mismunandi staði að tína grös (jurtir) og síðan úrbjuggum við okkur te sem við síðan hresstum okkur á í ferðalok. Þrátt fyrir smá rigningu öðru hvoru var þetta yndisleg ferð, fróðleg og skemmtileg. Ásdís Ragna er einstaklega skemmtileg og lífleg ung kona sem kom sinni þekkingu skýrt og greinilega á framfæri. Hún býr yfir mikilli orku og jákvæðni sem smitar til samferðafólksins.
Hlakka til að mæta aftur að ári, en þá ætlar Ásdís Ragna að kenna okkur smávegis í smyrslagerð líka.
Góður dagur, skemmtileg samvera og holl útivera! Reykjanesið er besta útivistarsvæðið.

Friday 29 May 2009

Stjórnmál

Ég veit ekki hvað ég er að hugsa. Það er svo margt sem fer í gegnum hugann. Nú er búið að hækka bensín og brennivín. Það má til sanns vegar færa að allir geti dregið saman á þeim vettvangi, hitt er annað að með þessari hækkun hækka líka öll lán og það hjá öllum. Það er svo ósanngjarnt, því neysluskattur er sanngjarn, en ekki þegar hann hleypur inná vísitöluna og hækkar í leiðinni önnur útgjöld, þar sem fólk hefur ekki val.
Samt hugsa ég um aðra hluti líka, en um daginn heyrði ég konu segja að hún ætlaði að kaupa ákveðin hlut þegar hún fengi útborgun af séreignasparnaði sínum þegar hún kæmi heim frá útlöndum um miðjan júní. Ég hugsaði mitt, er þetta ástæða til að taka út séreignasparnaðinn? Erum við Íslendingar alveg ófær um að aga okkur sjálf, ófær um að spara? Ófær um að neita okkur um eitthvað?
Spyr sá sem ekki veit!

Thursday 26 February 2009

keppni í ballet

Var í gærkvöldi á virkilega skemmtilegri sýningu, sem var keppni í ballet dansi. Þar var auðvitað fremst meðal jafningja hún dótturdóttir mín Hrund. Því miður komst hún ekki í vinningsliðið, en okkur afa þótti hún skila frábærum dansi, svo ótrúlega mjúk og létt, það var eins og hún svifi um sviðið. Ég gat ekki merkt neina taugaveiklun hjá henni, brosandi og örugg að sjá.

Sunday 25 January 2009

Góðir íslendingar!

Þetta er svo flott ávarp!
Nú eru sögulegir tímar. Komandi kynslóðir munu vísa í Búsáhaldabyltinguna, sem braut á bak aftur staðnað og óréttlátt feðraveldi hins unga lýðveldis Íslands. Lýðveldið Ísland er aðeins 65 ára og hefur gengið sér til húðar, þar sem óreiðumenn fengu að eyða og sóa fé landsmanna til eigin hagsmuna og gróða. Þeir hafa fengið að fara með mannorð okkar þannig að flestir íslendingar fyrirverða sig fyrir þjóðerni sitt!
En það er von! Nýtt lýðveldi, er heiti á samtökum, sem þó nokkrir hafa komið á laggirnar. Þeirra hugmyndir eru að hér skuli komið á Neyðarstjórn til að stýra þjóðaskútunni yfir boðaföllin næstu mánuði og misseri. Á sama tíma verði hópur manna valin til að endurskoða stjórnarskrá Íslands sem mikil þörf er á, þar sem margir gallar eru á þeirri sem notast hefur verið við í þessi 65 ár án nokkurra verulegra breytinga.
Þar á að leggja áherslu á að landið verði eitt kjördæmi (öll atkvæði hafi jafnt vægi), að ráðherrar séu ekki einnig alþingismenn og þeir mega ekki sitja í nefndum og ráðum útum allann bæ eins og nú tíðkast.
Ég trúi því að mikill meirihluti þjóðarinnar sé hlynntur þessum hugmyndum og ég hvet alla til að fara inná vef þessara samtaka nyttlydveldi.is og kynna sér það sem þar er krafist og helst af öllu skrifa undir áskorunina!
Heill og hamingja leiði okkur næstu mánuði, áfram Ísland

Saturday 24 January 2009

hvíti borðinn

Ég var að hugsa um að flagga hvítum fána næstu daga með appelsínugulu ívafi.

16. fundurinn

Ég græt næstum, því ég gat ekki verið á fundinum í dag. Ég var svo sannarlega með í huga og ekki skemmdi fyrir að fá að hlusta á fundinn í beinni á rás 2. ÉG græt líka næstum yfir því hve margir mættu (það var gleiðigrátur) og svo fékk ég beint í æð frá Bjarneyju (sms) hve stemmningin væri góð. En bakverkir og þreyta eftir erfiða nótt (svaf illa fyrir verkjum) hömluðu mér frá að vera með í dag. Það var mjög erfitt.
Ég hef sagt að ég er appelsínugul, því ég vil ekki beita ofbeldi né dónaskap gagnvart fólki, það er í lagi að steyta hnefa og hrópa, slá saman pottum og pönnum, en að vera með ógnandi tilburði gagnvart fólki, þar kemur að mínum mörkum!
Ég er líka hvít, því samtökin fyrir nýju lýðveldi skreyta sig með hvítum borða og ég ætla að lýsa yfir skoðun minni á því hve mikilvægt er að nú verði hreinsað til í stofnunum landsins og ný stjórnarskrá samin, með því að skarta hvítum borðum. Ný stjórnarskrá, neyðarstjórn sett á laggirnar strax og stjórnum fjármálastofnana komið undir neyðarstjórnina strax! Áfram Ísland!

Thursday 22 January 2009

Appelsínugulur

Verum í einhverju appelsínugulur (sá litur passar mér engan veginn, en ég læt mig hafa það) næstu daga, tökum ekki þátt í ofbeldi, ögrum ekki yfirspenntri lögreglu.
Mætum í mótmæli, en höfum bara hátt.

Njarð- víkingar?

Í dag er ég afar spennt fyrir framtaki Njarðar P. Njarðvík og Ólínu Þorvarðardóttur um nýja hugsun fyrir næstu framtíð. Ég hvet lesendur mína til að fara inná bloggið hennar Ólínu og þar er komið inná helstu atriði um hugsanlega lausn mála.
Það verður blaðamannafundur í dag og í dag verður opnuð síða þar sem fólk getur skráð sig inn til samþykktar tillögunum. Skoðið þetta!

Ég ætla líka að lýsa yfir leiða mínum yfir hvernig fólk er að taka þessi friðsamlegu mótmæli og snúa þeim í skömm. Það er að mínu mati alveg óverjandi að ráðast á fólk með ofbeldi og líkamsmeiðingum. Mér fannst alveg óþolandi að sjá aðförina að Geir og hans mönnum, sem og ofbeldi gegn lögreglunni.
Það má hafa hátt, henda snjó og eggjum (betra samt að éta þau), syngja, gaula, klappa. Því fleiri sem mæta og gera slíkt, því meiri áhrif, sem virðast nú vera að skila árangri. Það er ekki ofbeldið sem skilar árangri, það er fjöldinn sem mætti á þriðjudag með hávaðann! Því fleiri því betra.

Tuesday 20 January 2009

Fyrsti dagur mótmæla 20.jan 2009

Fórum á mótmælafundinn í dag og vorum mætt á Austurvöll um kl 13. Þar var töluvert stór hópur mættur og margir með hristur og flautur. Mér fannst stemmningin strax mögnuð og eitthvað í loftinu. Það bættust stöðugt fleiri og fleiri í hópinn og fjölbreyttni ásláttartækja varð meiri. Það var skemmtilegt að vera þarna, einstaka þingmenn sáust í gluggum á efri hæð Alþingishússins og gat ég þekkt þar m.a. Bjarna Ben og Sigurð K, Höskuld Þórhalls, Magnús Stefáns og einhverja fleiri.
Ég sá eftir því að hafa ekki tekið með mér pottlok og sleif, hávaðinn magnaðist og bættist heldur betur í þegar sjálfur Sturla Jónsson kom með þennan líka loftlúðurinn, það var gaman og samtaka tilfinningin jókst.
Okkur fannst reyndar furðulegt þegar við komum þá var búið að strengja borða lögreglunnar fyrir Alþingishúsið og við skildum ekki hvers vegna? Okkur fannst þetta vera ögrun lögreglunnar við fólkið sem hafði mætt þarna 15 laugardaga í röð og allt í einu var komin borði þar sem okkur var bannað að koma nálægt húsinu. Ég skil ekki tilganginn og tel að þetta hafi aðeins gert fólk pirrað. Margir reyndu að komast innfyrir en löggan stoppaði þá af. Skyndilega var samt opnað og fjöldinn gekk af stað vinstra megin við Alþingishúsið, þ.e. á milli þess og Dómkirkjunnar. Ég hélt að þetta væri eitthvað planað sem einhver ganga og flaut áfram með straumnum, en sá þegar ég kom fyrir hornið að þarna var aðeins verið að æsa leika milli löggu og yngri mótmælenda. Það var verið að stugga við fólki og því meinað að fara inní garðinn. Það var annað atriði sem við ræddum okkar í milli að væri óþarfi og þarna væri verið að ýkja hættuna, okkur fannst að það væri allt í lagi að banka í glugga Alþingis, við vorum þarna komin til að trufla þingfundi og það með því að skapa hávaða.
Við fórum þegar klukkan var rúmlega 13:30 því við höfðum skyldum að gegna sem við gátum ekki sleppt, en okkur dauðlangaði að vera lengur og virkilega sýna hve margiir eru mótmæltir þessari ríkisstjórn og valdhöfum öllum. Við ætlum að mæta aftur á morgun.

Friday 2 January 2009

Iceland Express og Icelandair

Gleðilegt ár!
Ég er enn að kyngja því að ég þurfi að borga 125.311 íslenskar krónur fyrir að bjóða syni mínum og sonarsyni heim um áramótin með Iceland Express. Fargjald frá Köben til Kef fyrir 1 fullorðin og 6 ára gamalt barn og til baka. Skýring flugfélagsins er sú að þetta sé gjaldið þar sem hann hafi pantað það 13.des og þá hafi bara dýru sætin verið eftir. Er þetta eðlilegt?
Hvar er samkeppnin? Eða er þetta bara sama gamla sagan að alltaf séu íslendingar sem búa í útlöndum píndir um jól og áramót þegar heimþráin er í hámarki?
Við hjón flugum til Dk via Oslo um jólin og borguðum 60 þús með Icelandair og sonarsonur flaug til DK um áramót fyrir rúml 30 þús kr með Icelandair (djöf...leiðist mér að nota þetta nafn) og má segja að það sé sanngjarnt verð, en 125 þús?
Enda því ættum við að búast við samkeppni þegar sömu aðilar eiga bæði flugfélögin. Það er svo dásamlegt að vera íslendingur!
Gleðilegt ferðaár kæru landar